143. löggjafarþing — 123. fundur,  18. júní 2014.

frestun verkfallsaðgerða Flugvirkjafélags Íslands gegn Icelandair.

616. mál
[17:54]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er lykilatriði þegar við spyrjum okkur spurningarinnar um það hvort við getum borið þá sönnunarbyrði sem við þurfum að bera, þegar kemur að því að storka stjórnarskrárvörðum réttindum eða að skerða þau, að við sjáum að aðstæðurnar séu beinlínis nógu slæmar til að réttlæta það. Já. Ef spurningin er sú hvort hlutirnir þurfi að verða mjög slæmir til þess að við þurfum að skerða stjórnarskrárvarin réttindi þá er svarið já, hlutirnir þurfa að verða mjög slæmir.

Stjórnarskrárvarin réttindi kosta, þau kosta peninga, þau kosta tíma. Þau þýða að yfirvöld mega ekki gera það sem þeim sýnist þegar hlutirnir eru orðnir pínulítið óþægilegir. Það eru ekki ríkir almannahagsmunir að hlutirnir séu þægilegir. Ég man eftir þessari umræðu um Herjólfslögin á sínum tíma, vegna þess að hv. þingmaður nefnir sérstaklega lífsgæði og heilsu, og minn skilningur á þeim tíma var einmitt sá að lífsgæði — og lífsgæði eru auðvitað mjög víðtækt hugtak — að heilsa fólks og líf væru ekki í voða. Það var eitt af því sem ég tók sérstaklega til greina þegar ég spurði mig þeirrar spurningar hvort þarna væri sönnunarbyrðin öxluð. Enn og aftur komst ég að þeirri niðurstöðu að svo væri ekki. Sönnunarbyrðin er alltaf — alltaf, alltaf — á herðum þess sem vill skerða réttindin, alltaf, án undantekninga.

Auðvitað hefðu tvær eða þrjár vikur, hugsanlega bara örfáir dagar, breytt málinu verulega á sínum tíma, það er vel hugsanlegt. En á þeim tíma sem við samþykktum þau lög taldi ég ekki að sönnunarbyrðin væri öxluð og tel það ekki enn.