143. löggjafarþing — 123. fundur,  18. júní 2014.

frestun verkfallsaðgerða Flugvirkjafélags Íslands gegn Icelandair.

616. mál
[17:56]
Horfa

Höskuldur Þórhallsson (F):

Virðulegi forseti. Ég kem upp í stutta ræðu vegna þess að ég vil hreyfa við umræðu um hagsmuni sem ég tel hafa verið fyrir borð borna hér á undanförnum árum. Það eru samgöngumál. Sú umræða á vel heima undir þessu máli vegna þess að við erum að ræða um að setja lög á verkfall sem mun skerða að miklu leyti samgöngur til og frá landinu. Ég held að flestir séu sammála um að þeir almennu hagsmunir sem eru í húfi séu fyrir borð bornir ef af verkfalli verður.

Við horfum upp á það núna að samgöngumál almennt hafa verið svelt frá hruni. Það er málaflokkur sem hefur verið algjörlega skilinn eftir út undan, því miður. Okkur hefur sem betur fer lánast að halda áfram með stórframkvæmdir til að bæta lífskjör og búsetuskilyrði, líka til þess að halda uppi hagvextinum í landinu sem er gríðarlega mikilvægur en við verðum með einum eða öðrum hætti að fara að huga að samgöngumálum almennt, ekki bara til og frá landinu eins og í þessu máli heldur einnig innan lands.

Finnar lentu í því að vegakerfi þeirra eftir hrun drabbaðist niður. Það var skorið niður í viðhaldi, nýframkvæmdum og fleiri þáttum og þegar loksins þurfti að fara að bæta í áttuðu menn sig á því að með því að hafa látið allt viðhald undir höfuð leggjast höfðu menn glatað gríðarlegum fjármunum. Það þurfti ekki lengur viðhald, það þurfti hreinlega uppbyggingu.

Ferðaþjónustan hefur núna stigið fram, sent álit við framlagða samgönguáætlun fyrir árin 2013–2016 og sagt að það verði að ráðast í almennar vegasamgöngur hringinn í kringum landið, fækka einbreiðum brúm, leggja bundið slitlag, hagsmunir ferðaþjónustunnar séu í húfi.

Umhverfisverndarsamtök hafa tekið í svipaðan streng og bent á að vegasamgöngur séu einfaldlega farnar að skaða umhverfi landsins.

Virðulegi forseti. Þetta eru ekki raddir sem voru uppi fyrir hrun og hafa í sjálfu sér ekki verið uppi. Nú stöndum við frammi fyrir því að það er jafnvel dýrara að fljúga innan lands, til Akureyrar, Egilsstaða og Ísafjarðar, en að fljúga til Kaupmannahafnar og London. Það er algjörlega ótæk staða, virðulegi forseti. Við verðum með einum eða öðrum hætti að tryggja þessar samgöngur. Þetta er að mínu mati algjört forgangsatriði.

Það var hreyft við því í umræðunni áðan að kannski séum við hugsanlega komin fyrir vind. Ég er ekki alveg eins sannfærður og hv. þm. Ögmundur Jónasson sem sagði að nú væru komnar upp allt aðrar aðstæður en voru fyrir hrun. Vissulega er staðan betri, hún er það, hún er betri, en ég bið þingheim að sameinast núna um það að við förum að huga að þessum málaflokki sem hefur verið sveltur. Þetta er forgangsatriði á komandi þingvetri.

Við settum fjármagn í almenningssamgöngur sem hefur víða gengið vel en víða verið umdeilt. Þetta fjármagn fór fyrst og fremst í almenningssamgöngur innan Stór-Reykjavíkursvæðisins. Almenningssamgöngur eru víðar, þær eru til að mynda til og frá Vestmannaeyjum eins og hefur verið mikið í umræðunni hér í þessu máli, en almenningssamgöngur eru líka flugsamgöngur.

Ég vil benda á að gerð hefur verið skýrsla sem sýnir fram á að innanlandsflug er að stærstum hluta þjóðhagslega hagkvæmt. Hver króna sem við setjum í innanlandsflugið skilar sér margfalt til baka, ekki aðeins í betri lífsgæðum og styrkingu á svæðum sem eiga, því miður, í mikilli varnarbaráttu, heldur fyrir allt samfélagið, hvort sem um er að ræða höfuðborg eða landsbyggð. Þetta eru sjónarmið sem eiga svo sannarlega við þegar við erum að ræða um samgöngur til og frá landinu.

Ég held að nú þurfum við að taka upp þessa umræðu, ferðaþjónustan þarf að halda henni á lofti, umhverfissamtök, landið allt, sveitarstjórnir. Við verðum að sameinast um að gera betur í þessu máli.