143. löggjafarþing — 123. fundur,  18. júní 2014.

frestun verkfallsaðgerða Flugvirkjafélags Íslands gegn Icelandair.

616. mál
[18:02]
Horfa

innanríkisráðherra (Hanna Birna Kristjánsdóttir) (S):

Virðulegur forseti. Ég vil hér í lokin þakka fyrir umræðuna. Ég held að mörg þau sjónarmið sem komið hafa fram í dag séu mikilvæg fyrir framhaldið. Ég ítreka og árétta það sem ég er búin að segja hér margoft í dag en kýs að loka þeirri umræðu með því að segja að ég held að við getum öll verið sammála um að það er mjög miður að við stöndum í þessum sporum. Við höfum öll verið reiðubúin að leggja ansi mikið á okkur til að afstýra því og koma í veg fyrir slíkt en staðan er engu að síður sú að þetta frumvarp verður nú tekið til umræðu í nefnd og farið verður yfir það.

Ég ítreka að við notum það tækifæri til að leita sátta hér á þingi, sátta við verkalýðshreyfinguna og sátta við atvinnulífið og Samtök atvinnulífsins um að við komum þessum málum í eitthvert það horf sem er betra en það sem við sjáum hér í dag.

Ég vil líka þakka sérstaklega öllum þeim hv. þingmönnum sem hafa komið með uppbyggilegar tillögur um hvernig við nálgumst næstu skref, uppbyggilegar tillögur um hvernig við skoðum löggjöfina, uppbyggilegar tillögur um hvernig við rýmkum heimildir og bætum þá um leið þær heimildir og þá aðstöðu sem ríkissáttasemjari hefur til að athafna sig á þessu sviði. Ég held að það sé mjög mikilvægt.

Ég ítreka einnig það sem ég sagði í fyrstu ræðu minni, að með þessari aðgerð er ekki tekin nein afstaða til deilunnar eða til afstöðu deiluaðila. Ég tek undir með hv. þm. Ögmundi Jónassyni um mikilvægi þess að þannig sé ekki haldið á hlutum. Ég held að við séum flestöll sammála um það að verkfallsrétturinn er mjög mikilvægur, ég mun ekki beita mér fyrir skerðingu á honum heldur mun ég beita mér fyrir því að umgjörðin verði þannig að aðilar geti komið að þessu borði og treyst því að mál verði til lykta leidd við það borð.

Eins og ég hef sagt áður, og fer náttúrlega að hljóma svolítið sérkennilega, ég átta mig á því, þegar farið er oft með þá ræðu, er þetta neyðarúrræði. Þó að grípa hafi þurft til þess oftar en einu sinni að undanförnu er það engu að síður neyðarúrræði.

Ég vil upplýsa þingheim um það að ég hef þegar fengið senda tilkynningu frá Flugvirkjafélagi Íslands þar sem flugvirkjar harma þá umræðu sem hér er í gangi og koma fram sjónarmiðum sínum um að þetta sé ekki viðunandi aðgerð. Ég skil vel afstöðu þeirra og skil vel að þeir séu ósáttir, en ég held að enginn sé sáttur. Menn geta auðvitað unnið með það í framhaldinu en við erum hér að gæta, vega og meta almannahagsmuni og þetta er mat okkar að þessu sinni. Í ljósi þeirra ríku hagsmuna og þeirra stórkostlegu tækifæra sem sú starfsstétt hefur í höndum sínum sannarlega vegna þess hversu mikilvæg störf þeirra eru til að tryggja samgöngur er það mat manna að þetta þurfi að vinnast með þessum hætti.

Beint var til mín ákveðinni spurningu, kannski ekki beint um þetta einstaka mál sem við ræðum en engu að síður var hv. þingmaður með fyrirspurnir til mín er lutu að gjaldtöku á ferðamannastaði þar sem þingmaðurinn áréttaði skoðun sína og ákveðin viðhorf hvað það varðar og óskaði svara við því af hverju lögreglan gerði ekkert í þeim málum og af hverju lögreglan tæki ekki á því sem hv. þingmaður telur og er sannfærður um að sé lögbrot. Ég árétta að það virðist sem einhver lagaágreiningur sé um það hvort um lögbrot sé að ræða eða ekki. Svör mín og skilaboð til þingmannsins eru því þau að ég skal láta skoða málið og fara yfir það og tryggja að hann fái skýr svör við fyrirspurnum sínum og leita leiða til að það sé rökstutt með skýrari hætti en hv. þingmaður telur að gert hafi verið um það hvort lögbrot sé á ferðinni eða ekki.

Til að botna umræðuna vil ég segja að ég vona að vel gangi að fara yfir málið. Mér skilst að fundur hefjist núna í hv. umhverfis- og samgöngunefnd og síðan förum við aftur yfir málið síðar í kvöld.