143. löggjafarþing — 123. fundur,  18. júní 2014.

frestun verkfallsaðgerða Flugvirkjafélags Íslands gegn Icelandair.

616. mál
[18:10]
Horfa

Ögmundur Jónasson (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti Við eigum náttúrlega að stefna að því að gera bara það sem gott þykir.

Varðandi lögbrotin er ég ekki að tala um fyrirskipanir. Ég er að tala um það að lögreglan sé kölluð á fund hæstv. ráðherra og hún spurð hvers vegna hún svari ekki ákalli borgara í þessu landi sem hafa ítrekað kvartað yfir því á opinberum vettvangi að verið sé að hafa af fólki fé með ólögmætum hætti. Ég er búinn að gera það margoft. Ég er búinn að gera það í fjölmiðlum, ég hef skrifað um það í blöðum. Ég vísa í aðra einstaklinga sem gert hafa slíkt hið sama. Þegar við höfum farið á vettvang ganga rukkararnir aldrei fast eftir því að fá sitt fram því að þeir vilja ekki láta skerast í odda. Þeir vita að stjórnvöld eru svo lin í þessu máli, eins og við þekkjum með hæstv. ferðamálaráðherra sem sagði að það gengi prýðilega að innheimta fé við Kerið. Ég sný því yfir á íslensku: Það gengur prýðilega að stela af fólki við Kerið í Grímsnesi. Ég tek svo djúpt í árinni, ég orða þetta svona.

Ég er búinn að lesa lögin mjög rækilega og ég staðhæfi hér í ræðustól Alþingis að verið er að brjóta lög á fólki.