143. löggjafarþing — 124. fundur,  18. júní 2014.

frestun verkfallsaðgerða Flugvirkjafélags Íslands gegn Icelandair.

616. mál
[22:08]
Horfa

félags- og húsnæðismálaráðherra (Eygló Harðardóttir) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þó að hv. þm. Árni Þór Sigurðsson hafi óskað eftir því að ég kæmi frekar upp í ræðu taldi ég réttara að nýta andsvarið því að ég tel að ég hafi að vissu leyti svarað spurningum þingmannsins við 1. umr.

Eins og kom fram í máli mínu þar tók ég undir að þetta væri eitt af því sem við þyrftum að fara í gegnum og þyrftum að skoða og að ég væri alls ekki mótfallin því að huga að því að samræma íslenska löggjöf við löggjöf Norðurlandanna. Hins vegar liggur afstaða mín ekki fyrir enda fyndist mér mjög einkennilegt að vera að ræða um samráð við aðila vinnumarkaðarins og samvinnu við alla stjórnmálaflokka hér á þingi ef ég væri þegar búin að fullmóta afstöðu mína og farin að huga að því hverju ég mundi vilja breyta. Ég tel það að minnsta kosti ekki vera réttu vinnubrögðin þegar kemur að svona stóru máli.

Mér finnst hins vegar mjög margt áhugavert hafa komið fram í máli þingmannsins. Ég vil að það sé algjörlega ljóst að svarið við þeirri spurningu hvert við séum að stefna, hvort um sé að ræða einhverjar grundvallarbreytingar, er nei. Það er algjörlega skýrt að ef eitthvað er þá hafa þeir stjórnmálaflokkar sem standa að þessari ríkisstjórn verið þekktir fyrir ákveðna íhaldssemi sem snýr að stjórnarskránni okkar. Það er mjög mikilvægt, og það er það sem við viljum gera, að standa vörð um þau réttindi sem þar eru og þar á meðal verkfallsréttinn.

Í máli hæstv. innanríkisráðherra hafa líka margoft komið fram áhyggjur hennar af því að þurfa að beita þessu neyðarúrræði. Ég tel að allir þeir sem standa að ríkisstjórninni séu sammála um að þetta sé neyðarúrræði. Það er eitthvað sem við viljum helst ekki þurfa að beita en aðstæður eru þannig núna.

Mér finnst það líka mjög áhugaverð umræða, og ég held að það sé eitt af því sem við þurfum að ræða, þær vangaveltur um kjarabætur, í hverju kjarabætur felist. (Forseti hringir.) Einnig er áhugavert að ræða það verklag sem aðilar vinnumarkaðarins (Forseti hringir.) hafa verið að reyna að koma að á undanförnum missirum.