143. löggjafarþing — 124. fundur,  18. júní 2014.

frestun verkfallsaðgerða Flugvirkjafélags Íslands gegn Icelandair.

616. mál
[22:10]
Horfa

Árni Þór Sigurðsson (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir andsvar hennar. Ég tel að það sé mjög mikilvægt sem kom fram í máli hennar, að af hálfu stjórnarflokkanna væri ekki litið svo á að um væri að ræða grundvallarbreytingu að því er varðar verkfallsréttinn. Ég tel að það sé mikilvægt innlegg í þessa umræðu.

Ég tel engu að síður að þær áhyggjur sem hafa komið fram, bæði í umræðunni í þinginu og hugsanlega af hálfu aðila vinnumarkaðarins, ekki síst þá launþegahreyfingarinnar, séu þess eðlis að taka þurfi þær alvarlega. Það er mikilvægt fyrir ríkisstjórnina að eiga samtöl við aðila vinnumarkaðarins um það mál sérstaklega, hvaða áhyggjur þeir hafa, þannig að ríkisstjórnin taki af allan vafa í þessu efni gagnvart þeim.

Ég vildi þá líka inna hæstv. ráðherra eftir því, af því að hún vísaði til þess sem hún ræddi hér í andsvörum fyrr í dag, að hún hefði viljað skoða það að laga kerfið okkar að því kerfi sem þekkist á öðrum Norðurlöndum, hvort hún hafi nú þegar rætt við aðila vinnumarkaðarins um einhverja slíka vinnu og hvort ráðherrann hefði þá hugsanlega litið til annarra landa.

Nefnt var í umræðum í dag að þessum málum væri mismunandi fyrir komið, á einn veg í Noregi og Svíþjóð en á annan veg í Þýskalandi og Frakklandi, þannig að hugsanlega þyrfti að skoða þetta í stærra samhengi. Ég tel líka að það sé rétt sem kom fram í máli hv. þm. Ögmundar Jónassonar í dag að allt þetta þarf líka að skoðast í samhengi við launastrúktúrinn í landinu. Það er auðvitað líka mikilvægt fyrir stéttir launafólks að geta barist fyrir kjarabótum. Það eru mikilvæg mannréttindi sem í því felast. (Forseti hringir.)

En mikilvægt er að ekki sé um grundvallarbreytingu að ræða og ég vil heyra frá hæstv. ráðherra hvort hún hafi nú þegar rætt þessi mál við aðila vinnumarkaðarins.