143. löggjafarþing — 124. fundur,  18. júní 2014.

frestun verkfallsaðgerða Flugvirkjafélags Íslands gegn Icelandair.

616. mál
[22:21]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir svarið og ég skal taka hvalaumræðuna við hann seinna. Mér fannst það ekki koma nógu skýrt fram hjá hv. þingmanni hversu lengi hann teldi að við þyrftum að bíða með að grípa inn í eða hversu mikið tjón þyrfti að verða til þess að lagasetning væri réttlætanleg.

Mig langar því að spyrja hv. þingmann í ljósi þess að vinnudeila nákvæmlega sömu aðila var stöðvuð hér fyrir fjórum árum, árið 2010, en þá sat ég ekki á þingi: Hvað er öðruvísi nú en þá annað en ártalið? Hvaða aðstæður voru þá brýnni og hvers vegna var meira knýjandi að setja lög á vinnudeiluna sem þá stóð en við þær aðstæður sem nú eru?