143. löggjafarþing — 124. fundur,  18. júní 2014.

frestun verkfallsaðgerða Flugvirkjafélags Íslands gegn Icelandair.

616. mál
[22:22]
Horfa

Árni Þór Sigurðsson (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég hef í þessari umræðu og áður komið þeim sjónarmiðum á framfæri að þegar menn ræða íhlutun í vinnustöðvanir eins og hér var yfirvofandi þá verði alltaf að meta hvert mál fyrir sig. Þau eru ólík, umhverfið er ólíkt og aðstæður ólíkar. Að það sé talið réttlætanlegt í einu tilfelli þýðir ekki endilega að það sé réttlætanlegt í öðru tilfelli þó að um sömu deilendur sé að tefla.

Efnislega hefur verið á það bent í þessari umræðu að þegar vinnustöðvunin var yfirvofandi árið 2010 vorum við í miðjum klíðum við að byggja upp eftir efnahagshrunið. Það voru mjög miklir erfiðleikar í efnahagslífi okkar, miklu meiri en nú er. Sem betur fer hefur okkur gengið þokkalega á mörgum sviðum að byggja hér upp eftir efnahagshrunið.

Nefnt var að þá var eldgos hér á landi og hafði það að sjálfsögðu áhrif á ferðaþjónustuna og önnur staða var hér þá að því er varðar samgöngur til og frá landinu. Í dag búum við við það að fjölmörg flugfélög sinna flutningum, einkum og sér í lagi farþegaflutningum til og frá landinu. Ekki er hægt að segja að aðstæðurnar hafi að öllu leyti verið þær sömu.

Hvort það er nægjanlegt til að hafa aðra afstöðu í dag en fyrir fjórum árum verður auðvitað hver og einn að meta á grundvelli þeirra upplýsinga sem hann hefur. Ég ítreka enn og aftur að ég tel að það vanti að reiða fram þær upplýsingar í þessu máli og líka árið 2010, ég ætla ekki að neita því. Ég skoðaði frumvarpið og nefndarálitið þá, ég var sjálfur ekki staddur hér á þingi þegar það mál var afgreitt, ég var við skyldustörf erlendis. (Forseti hringir.)

Ég tel að það vanti upplýsingar um efnahagslegu áhrifin inn í þetta mál, það hefði verið ákjósanlegt að þær hefðu verið reiddar fram.