143. löggjafarþing — 124. fundur,  18. júní 2014.

frestun verkfallsaðgerða Flugvirkjafélags Íslands gegn Icelandair.

616. mál
[22:33]
Horfa

Frsm. minni hluta um.- og samgn. (Katrín Júlíusdóttir) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég sat þennan nefndarfund og er fyrsti varaformaður nefndarinnar og þetta var svona: Í upphafi fundar tilkynnir formaður nefndarinnar, hv. þm. Höskuldur Þórhallsson, nefndinni að hvert holl fái eingöngu hálftíma og síðan verði klippt á það. Við fengum ekkert tækifæri til að mótmæla því neitt sérstaklega, ekki var opnað á neinar umræður um það.

Gott og vel. Við ætluðum svo sem ekkert að leggjast yfir málið og þetta gekk vel í fyrstu þremur hollunum. Við lögðum okkur fram, gestirnir lögðu sig fram um að láta þetta ganga að menn gátu unnið innan hálftíma með málið. Ég tel að við höfum tæmt þetta sæmilega í fyrstu þremur hollunum.

Í því síðasta var það einfaldlega þannig að þangað koma fjórir ólíkir aðilar sem höfðu frá miklu að segja. Þegar tveir þeirra voru búnir að tala ákveður formaðurinn að skjóta inn í vangaveltum um ákveðið framtíðarspursmál og bað þá tvo sem áttu eftir að tala að hafa það í huga í svörum sínum. Þetta lengdi dálítið svör þeirra og þegar þeir höfðu lokið máli sínu var hálftíminn liðinn og formaðurinn tók þá beinlínis ákvörðun sjálfur, þrátt fyrir óskir okkar um annað, að heimila ekki fyrirspurnir til Samtaka atvinnulífsins, Alþýðusambands Íslands, Samtaka iðnaðarins og til lögmannsins Ástráðs Haraldssonar. Þetta var einvörðungu ákvörðun formannsins sem við mótmæltum. Það sem við gerum í nefndarálitinu er ekkert annað en að greina frá því hvers vegna við þurftum að eiga samtalið sem dró þessar upplýsingar fram frá Alþýðusambandinu frammi á gangi á nefndasviði.

Ég heyri ekki að formaðurinn sé neitt að mótmæla þessu og það er eðlilegt að þingheimur viti hvernig málum vatt fram í nefndarstarfinu. Þetta var fullkomlega óþarfi, það er mín skoðun, það var fullkomlega óþarfi.(Forseti hringir.) Það hefði ekkert skaðað málið, það hefði bara bætt það og skapað meiri frið um lok þess ef þessum tíu mínútum hefði verið bætt við nefndarfundinn í stað þess að (Forseti hringir.) þurfa að taka þær frammi á gangi.

Þetta er ekki heldur boðlegt gagnvart þeim gestum sem koma fyrir nefndirnar.