144. löggjafarþing — þingsetningarfundur

minning Vilhjálms Hjálmarssonar.

[14:19]
Horfa

Forseti (Einar K. Guðfinnsson):

Nú verður minnst látins fyrrverandi alþingismanns. Vilhjálmur Hjálmarsson, fyrrverandi alþingismaður og ráðherra, lést á heimili sínu, Brekku í Mjóafirði, 14. júlí sl., á hundraðasta aldursári.

Vilhjálmur var fæddur á Brekku 20. september 1914. Foreldrar hans voru Hjálmar Vilhjálmsson útvegsbóndi og kona hans Stefanía Sigurðardóttir húsfreyja þar á bæ. Skólaganga Vilhjálms var ekki löng. Hann lauk héraðsskólaprófi á Laugarvatni 1935. Að því loknu hvarf hann heim á æskustöðvar og varð bóndi á Brekku í 30 ár, allt fram til ársins 1967, fyrst með föður og föðurbróður, síðar með syni sínum. Var hann jafnan kenndur við þann bæ, Vilhjálmur á Brekku. Jafnframt bústörfum var hann kennari við barnaskólann í Mjóafirði í áratug, og síðar, 1956–1967, var hann skólastjóri barnaskólans. Samhliða þessum störfum sinnti Vilhjálmur margvíslegum öðrum verkum, m.a. jarðvinnslu, vegagerð og ræktunarstörfum. Á árunum 1964–1970 rak hann með öðrum síldarsöltun í Mjóafirði.

Eins og að líkum lætur með svo öflugan mann í fámennu sveitarfélagi hlóðust á Vilhjálm umfangsmikil félagsmálastörf þegar á ungum aldri. Hann sat í hreppsnefnd Mjóafjarðarhrepps 1946–1990, var lengi oddviti og sat í sýslunefnd Suður-Múlasýslu í tæpa þrjá áratugi. Hann sat fyrir Sunnmýlinga á fundum Stéttarsambands bænda, var í framleiðsluráði landbúnaðarins og í verðlagsnefnd landbúnaðarafurða. Vilhjálmur átti sæti í fjölda nefnda til að endurskoða mikilvæga lagabálka, einkum um landbúnað, og á síðari árum á sviði mennta- og menningarmála. Hann átti sæti í kirkjuráði í allmörg ár og var formaður útvarpsráðs 1980–1983. Sérstaka ánægju veitti það Vilhjálmi að vera formaður skólanefndar Húsmæðraskólans á Hallormsstað 1954–1974.

Vilhjálmur Hjálmarsson hóf ungur afskipti af stjórnmálum og skipaði sér í sveit framsóknarmanna. Aðeins 28 ára gamall var hann í framboði í Suður-Múlasýslu fyrir kosningarnar haustið 1942 og síðan jafnan þar til hann hlaut kosningu til Alþingis haustið 1949. Hann sat tvö kjörtímabil, eða fram til 1956, og náði kosningu að nýju vorið 1959. Þegar ný kjördæmaskipan komst á haustið 1959 átti Framsóknarflokkurinn sex þingmenn á því svæði sem varð Austurlandskjördæmi, en gat vænst þess að fá þrjá menn kosna í kjördæminu. Vilhjálmur varð því að víkja fyrir reyndari mönnum og bíða átekta um sinn. Hann tók þó sæti fjórum sinnum sem varaþingmaður. Við alþingiskosningarnar 1967 var hann kosinn aðalmaður að nýju og sat þá í 12 ár, þar til hann hætti afskiptum af stjórnmálum 1979. Þingseta Vilhjálms nær þannig yfir 30 ára tímabil, þótt ekki sé hún samfelld, en hann sat á 26 löggjafarþingum alls.

Á síðari hluta þingferils síns var Vilhjálmur Hjálmarsson í forustusveit síns flokks og þegar menntamálaráðuneytið féll í hlut Framsóknarflokksins 1974 valdist hann til ráðherra þess málaflokks. Það sætti tíðindum með svo lítt skólagenginn mann, en á fjórum árum í menntamálaráðuneytinu aflaði Vilhjálmur sér bæði trausts og vinsælda og kom fram mörgum þörfum málum á sviði mennta og menningar.

Vilhjálmur Hjálmarsson var minnisstæður maður með sterk persónueinkenni. Gamansemi hans, græskulausri, og sagnagleði var við brugðið og var eins og óþrjótandi brunnur. Hann var alla ævi vaskur og verkglaður, naut trausts samþingmanna sinna þvert á flokksbönd fyrir hógværð í málflutningi og heiðarleika. Rætur hans stóðu traustar í íslensku bændasamfélagi þar sem framfaravilji og heilbrigðir lífshættir, ásamt trú á gildi menntunar og ræktunar í víðum skilningi, voru megingreinar á stofni.

Þótt Vilhjálmur léti af þingmennsku 65 ára gamall settist hann ekki í helgan stein, heldur hóf þá langan rithöfundarferil með á þriðja tug bóka um sagnfræðileg efni, þjóðlegan fróðleik, stjórnmál og byggðasögu síns héraðs. Þeim ferli lýkur fyrst nú síðar í þessum mánuði þegar síðasta verk frá hendi Vilhjálms Hjálmarssonar kemur út að honum látnum á 100. afmælisdegi hans. Það má teljast einstætt afrek.

Með Vilhjálmi Hjálmarssyni er hniginn að velli merkur stjórnmálamaður, fjölfróður alþýðumaður sem naut almennrar virðingar og hylli landsmanna.

Ég bið þingheim og viðstadda gesti að minnast Vilhjálms Hjálmarssonar með því að rísa úr sætum. — [Þingmenn risu úr sætum.]