144. löggjafarþing — 2. fundur,  10. sept. 2014.

stefnuræða forsætisráðherra og umræður um hana.

[20:41]
Horfa

Guðmundur Steingrímsson (Bf):

Virðulegur forseti. Kæru landsmenn. Eftir að hafa hlýtt á stefnuræðu hæstv. forsætisráðherra finnst mér ég einhvern veginn tilknúinn til þess að færa það skýrt til bókar að mér finnst landið líka ægifagurt. Mér finnst fossarnir fallegir, fjöllin falleg, jöklarnir loga. Mér finnst íslensk matvæli líka mjög góð. Ég er mikill aðdáandi lambakjöts og mér finnst skyr mjög gott, betra en ABT-mjólk. Ég er einnig einstaklega þakklátur fyrir það, alveg frá dýpstu hjartarótum, að á Íslandi eru til dæmis engar eiturslöngur. Ég ætti mjög erfitt með að búa í landi þar sem væru eiturslöngur. Við erum auðvitað rosalega heppin á svo margan hátt og hér eru mikil tækifæri, það er engum vafa undirorpið. Mér finnst mjög mikilvægt að segja það.

Mér finnst líka mjög mikilvægt að segja á þessum tímapunkti að mér finnst tónninn, sá tónn sem hefur hljómað í ótal stefnuræðum forsætisráðherra áratuganna á Íslandi um hin einstöku tækifæri Íslendinga, um hina fallegu náttúru — mér finnst hann varhugaverður. Mér finnst ákveðin tegund af belgingi, eigum við að segja kannski þjóðernisbelgingi, varhugaverð þótt ég taki alveg undir slíkt á ákveðinn hátt sem Íslendingur. Mér finnst við þurfa að sporna gegn ákveðinni gagnrýnislausri einangrunarhyggju sem gætir mjög í umræðunni. Mér finnst við þurfa miklu meira jarðbundna víðsýni. Mér finnst við þurfa að átta okkur á því að við erum ekki eina þjóðin sem á fallega náttúru. Það eru mjög fallegir fossar í Suður-Ameríku, mjög falleg fjöll í Nepal. Það eru líka aðrar þjóðir sem eiga ríkar auðlindir, Svíþjóð, Finnland. Úti um allt eru þjóðir sem eiga auðlindir.

Við þurfum að uppgötva að við getum lært af öðrum þjóðum. Við þurfum að starfa með öðrum þjóðum. Mörg vandamál samtímans eru beinlínis þannig að við leysum þau ekki ein. Við leysum þau aðeins í samstarfi við aðrar þjóðir og við ættum að leysa þau, að mati mínu og að mati Bjartrar framtíðar, í samstarfi við Evrópuþjóðirnar. Þessi tónn er varhugaverður vegna þess að hann dregur úr mikilvægi þess, að mínu mati, að við erum þjóð á meðal þjóða.

Þessi tónn er líka varhugaverður og sporin hræða vegna þess að stundum er boðskapurinn um hina einstöku möguleika Íslands og hina einstöku stöðu, hvað allt hér sé gott, einfaldlega ekki réttur. Hann er ekki alveg sannur. Við heyrðum þessar ræður upp úr aldamótum. Þær voru aldeilis haldnar af miklum móð um það hvað Íslendingar væru einstakir, hvað hér væri mikið af möguleikum og hvað við værum að gera þetta vel. Svo hrundi landið. Svo hrundi Ísland. Einhvern veginn sá það enginn fyrir. Það sem okkur skorti þá var varkárni, yfirvegun, skynsemi, víðsýni. Við eigum að minna okkur á það núna að þá þætti þurfum við að vernda í umræðunni og þegar við tölum um stjórnmál.

Tökum dæmi: Hæstv. forsætisráðherra segir að landið sjái okkur fyrir nægri umhverfisvænni orku. Þann tón heyrum við mjög oft, að hér sé gnægt af umhverfisvænni orku og við séum heppin hvað það varðar. Hér er vissulega umhverfisvæn orka en hún er ekki ótakmörkuð. Það þarf einungis að byggja eitt álver í viðbót, að því er mér reiknast til, og öll þessi orka er þar með notuð, tunnan tóm. Það er ekki meira sem við eigum eftir af umhverfisvænni orku. Það færi okkur betur að tala af skynsemi og yfirvegun um þau mál og átta okkur á því að þetta er takmörkuð auðlind og við þurfum að njóta sem mests arðs af henni, af því sem við þó ætlum að nýta, og við megum ekki flana að neinu. Þetta er aðeins eitt dæmi um að það hentar betur að tala á jarðbundnari hátt um möguleika Íslands.

Það er hagvöxtur. Atvinnuleysi fer minnkandi. Það er aukin fjárfesting. Það er gott. Það er flott. Ég fagna því. En köfum dýpra. Hugsum aðeins lengra. Hvað býr á bak við tölurnar?

Hagvöxturinn er til dæmis ekki drifinn áfram af útflutningsatvinnuvegum. Hann er drifinn áfram af einkaneyslu, að miklu leyti til. Það er auðvitað jákvætt að heimilin hafi úr meira að spila en það er líka varhugavert vegna þess að það er lítill sparnaður fyrir hendi í íslensku samfélagi til að mæta þörfum einkaneyslu. Þetta getur leitt til þess að við förum offari í lántöku, við Íslendingar, eins og við höfum gert áður. Og það getur leitt til þess að vöruskiptajöfnuðurinn við útlönd verður mjög óhagstæður, vegna þess að við kaupum of mikið inn af vörum erlendis frá. Það er vont þegar við erum með íslenska krónu og þegar við ætlum að afnema gjaldeyrishöftin. Hagvöxturinn er líka drifinn áfram af allt of mörgum vinnustundum miðað við aðrar þjóðir. Framleiðni er lág. Við vinnum of mikið til að ná þessum árangri.

Þá kemur að fjárfestingunni. Það þarf að fjárfesta í fjölbreyttu atvinnulífi með háa framleiðni. Það er það sem þarf á Íslandi. Fjárfestingin er enn þá undir sögulegu lágmarki og hún er mjög afmörkuð. Hún er einsleit. Það tengist síðan við hitt. Minna atvinnuleysi er sagt, það er rétt, en það er enn þá allt of hátt hlutfall atvinnuleysis meðal ungs menntaðs fólks á Íslandi sem endurspeglar það sama, störfum fjölgar ekki sem hæfa því vinnuafli. Þetta á að vera mikill áfellisdómur yfir hagstjórninni og við eigum að taka það mjög nærri okkur. Erum við sem sagt að byggja á hagvexti sem hrekur burt ungt menntað fólk? Mér finnst þetta gríðarlegt áhyggjuefni.

Þannig að ef við rýnum í tölurnar, rýnum í veruleikann sem kann við fyrstu sýn að virðast mjög jákvæður, og er það í grundvallaratriðum, sjáum við að verkefnin eru æðistór og við stefnum ekkert endilega í rétta átt. Við erum enn að stuðla að einsleitni í atvinnulífi. Það eru þó stigin skref í fjárlagafrumvarpinu sem ég fagna, eins og að auka fjárframlög til rannsókna og nýsköpunar sem geta stuðlað að fjölbreytni í atvinnulífinu, en við þurfum að gera miklu meira. Það gengur ekki að setja pening í menntakerfið og taka hann síðan til baka í formi aðhaldskröfu.

Við tölum um og montum okkur af góðu heilbrigðiskerfi og góðu menntakerfi og mikið afskaplega er það gott allt saman, fólkið sem vinnur í heilbrigðiskerfinu og menntakerfinu, það vinnur kraftaverk á hverjum degi. Ég hefði vonað, og ég leyfi mér enn að vona, að fólkið sem hefur unnið kraftaverkastarf í gríðarlegri lægð í íslensku efnahagslífi þar sem hefur þurft að skera mikið niður muni einhvern tímann sjá ljósið við enda ganganna. Ég held að það sé gríðarlega lýjandi að vera í yfirmannsstöðu á Landspítalanum núna og horfast í augu við að það vantar enn hátt í 2 milljarða, bara til þess að mæta lögbundnum skyldum spítalans. Það vantar 4%.

Þetta hlýtur að vera einstaklega sorglegt núna þegar það er til peningur. Það er til peningur. Það fannst nýr skattstofn upp á 20 milljarða sem er kominn í fjárlögin.

Það lýsir pólitískri forgangsröðun að ekki á að nota þá peninga til að endurreisa velferðarkerfið, til að fara í nauðsynlegt viðhald í vegakerfinu þar sem safnast upp viðhaldsþörf, til að fara í endurreisn menntakerfisins eftir langvarandi niðurskurðartíma, til að greiða niður opinberar skuldir. Það er ákveðið að fara í skuldalækkunaraðgerðir sem vissulega eitthvað um 60 þúsund heimili hafa ákveðið að þiggja en annar eins fjöldi getur ekki þegið — annar eins fjöldi heimila getur ekki á neinn hátt notið þeirra aðgerða — heldur mun aðeins taka afleiðingum af verðbólgunni sem aðgerðirnar skapa. Það er því í mörg horn að líta.

Það er talað um að einfalda skattkerfið. Ég held að það sé gott skref að afnema vörugjöldin en ríkisstjórnin þarf að tala skýrar þegar kemur að virðisaukaskattskerfinu. Það hljómar ekki sem einföldun í mínum huga að breyta einungis skattprósentunum. Og það hljómar heldur ekki sem skattalækkun í mínum huga, mér fannst hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra reyna að halda því fram, að skattur hækki úr 7% í 12% á matvæli og bækur.

Ef það á að gera þetta verða að koma betri og raunhæfari mótvægisaðgerðir en að setja pening í barnabætur. Fjölmargir hópar njóta ekki barnabóta, þeir munu hins vegar taka afleiðingum af hærri matarskatti. Og það er köld kveðja til menningarinnar að ekkert er getið um mótvægisaðgerðir ef hækka á virðisaukaskatt á bækur.

Við getum lært af öðrum þjóðum, Íslendingar. Það er í fjölmörg horn að líta í umhverfismálum, mannréttindamálum. Margt gerum við vel, margt þurfum við að gera betur. Við þurfum að taka umhverfisvána miklu alvarlegar en við gerum. Hlýnun jarðar felur ekki bara í sér nýja siglingaleið fyrir Ísland. Við þurfum að grípa til aðgerða hér og læra af öðrum þjóðum til að efla umhverfisvænan lífsstíl.

Við komum til þings, þingmenn Bjartrar framtíðar, klyfjuð þingmálum. Við leggjum fram þingsályktunartillögu um framtíðargjaldmiðil Íslands sem fjallar einfaldlega um það hvaða veruleiki á að taka við að loknum höftum. Við viljum bætt starfsumhverfi erlendra sérfræðinga. Okkur er umhugað um breyttar áherslur í landbúnaði. Við komum með fjölmörg góð mál tengd lýðheilsu og aðgerðir gegn kynferðisofbeldi í samstarfi við þingmenn aðra flokka, frumvörp til að efla hönnunargeirann, efla kosningaþátttöku og lýðræðisvitund ungs fólks, vernda uppljóstrara, afnema lög um mannanöfn, þingsályktunartillöguna um aðgerðir gegn matvælasóun. Við viljum faglega ráðningu sendiherra. Fjarlækningar eru annað dæmi. Það eru ýmis mál sem við komum með hér í upphafi þings og við ætlum að reyna eftir fremsta megni að hafa góð áhrif á íslenskt samfélag.

Við viljum líka hafa góð áhrif á umræðuna og stemninguna hér á þingi. Það er mér því heiður og ánægja að tilkynna öskurklefa sem listakonan og dansarinn Erna Ómarsdóttir og Valdimar Jóhannsson listamaður hafa hannað sem hluta af listaverki og er klefi sem er svartur að innan og algjörlega hljóðeinangraður, hann lekur ekki. Við ætlum að bjóða öllum þingmönnum að koma og njóta klefans á hæðinni okkar á skrifstofu Bjartrar framtíðar, á hvaða tíma sólarhrings sem er, algjörlega endurgjaldslaust. Þið getið öskrað þarna inni, fengið útrás, orðað hugsanir ykkar upphátt, sem oft er skynsamlegt að gera áður en maður fer í fjölmiðla. Með því kostaboði frá Bjartri framtíð til ykkar lýsi ég jafnframt von minni um að samstarfið verði gott á komandi þingvetri.