144. löggjafarþing — 2. fundur,  10. sept. 2014.

stefnuræða forsætisráðherra og umræður um hana.

[20:54]
Horfa

Jón Þór Ólafsson (P):

Kæru landsmenn. Fyrsta forgangsmál Pírata á þessu þingi er tillaga um að á Íslandi verði skapað vistkerfi eins og best verður á kosið fyrir hagnýtingu internetsins og annarrar upplýsingatækni ásamt réttindavernd notenda.

Á heimsviðskiptaráðstefnunni fyrir ári kom skýrt fram að upplýsinga- og fjarskiptatækni sé í dag viðurkennd sem lykiluppspretta nýsköpunar sem auki hagvöxt og fjölgi störfum, ásamt því að hafa jákvæð áhrif á langtímasamkeppnishæfni og samfélagslega velferð.

Fyrstu skrefin í þeirri stefnumótun sem tillagan byggir á hófust í atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu í starfshópi sem hæstv. Ragnheiður Elín Árnadóttir skipaði og bað mig um að leiða. Hlutverk hópsins var að skoða tækifæri á hagnýtingu internetsins í þágu nýsköpunar og atvinnuþróunar. Samstarfsfólki mínu í starfshópnum vil ég þakka kærlega fyrir mjög vel unnin störf og hæstv. Ragnheiði Elínu Árnadóttur vil ég þakka sérstaklega fyrir frumkvæðið og frábært samstarf. Ráðherra er hlynnt málinu, ráðuneytið er fylgjandi, hagsmunaaðilar vilja hefjast handa sem fyrst, allir þingflokkar eru með þrjá þingmenn á tillögunni, þar á meðal er hv. Jón Gunnarsson, formaður atvinnuveganefndar, sem málið gengur til.

Helstu ráðgjafarfyrirtæki heims benda á getu internetsins til að bjóða upp á meiri hagsæld og verðmæti og þá á breiðari grunni en nokkur efnahagsþróun frá iðnbyltingunni. Rétt eins og í iðnbyltingunni mun velmegun vaxa hraðast í þeim löndum sem fyrst nýta sér og innleiða nýju tæknina til fulls. Við vitum hvað best hefur reynst hjá öðrum ríkjum í þessum efnum og þessi þingsályktunartillaga gerir það sem bæði ráðgjafarfyrirtækin McKinsey og Boston Consulting Group benda hinu opinbera á, að skipaður verði starfshópur ráðherra sem vinni markvisst og faglega að þessum málum í landinu. Sú vinna ætti að geta hafist núna strax í upphafi nýja ársins. Og til þess að undirstrika: Þetta er ekki bara spurning um eitthvert internet og upplýsingafyrirtæki vegna þess að hagvöxtur síðustu ára er að 20% til kominn vegna internetsins og 75% af því eru í hefðbundnum iðnaði.

Önnur mál sem við píratar munum setja í forgang á komandi þingi eru mál sem Helgi Hrafn Gunnarsson mun hafa forgöngu fyrir, eins og að samþykki verði skráð þannig að þegar fólk vill velja sjálft að vera líffæragjafi sé því gert það auðvelt, og alls konar svona ákvarðanir sem fólk vill taka og hvaða persónuupplýsingar um það, svo sem heilbrigðisupplýsingar, megi nota í rannsóknir og slíkt þannig að það sé upplýst samþykki fólks og það sé gert auðveldara.

Birgitta Jónsdóttir mun svo hafa frumkvæði að máli varðandi „Net-neutrality“, að tryggja jafnan hraða og internetið haldi áfram að vera það sem það hefur verið, að það sé jafnt aðgengi allra að því og það sé ekki hægt að stöðva eða hægja á hraðanum til sumra. Ef það gerist mun það gjörsamlega rústa frumkvöðlastarfsemi og nýsköpun af því að þeir geta ekki greitt fyrir þennan háhraða sem aðrir gætu gert.

Það mun draga til tíðinda í lok þess vetrar sem fram undan er varðandi lögmæti á útfærslu langflestra verðtryggðra húsnæðislána landsins. Já, verðtryggingin er lögleg en útfærslan á henni í neytendalánasamningum frá 2001 er það ekki því að þar er kostnaður við verðtrygginguna reiknaður miðað við 0% verðbólgu sem þýðir í rauninni að neytandinn fékk ófullnægjandi upplýsingar um verðið á láninu. Þetta er álit Eftirlitsstofnunar EFTA, ESA, framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins og Neytendastofu á Íslandi. Í þessum mánuði, líklega, mun EFTA-dómstóllinn svo gefa álit sitt um þennan þátt að beiðni Verkalýðsfélags Akraness.

Mál Hagsmunasamtaka heimilanna gegn Íbúðalánasjóði sem verður tekið fyrir í héraðsdómi, mögulega um mánaðamótin september/október, snýst einmitt um að útfærsla verðtryggingarinnar á neytendalánasamningum frá 2001 sé ólögmæt, ekki hvort verðtryggingin sem slík á neytendalánum sé það. Það mál mun klárast fyrir Hæstarétti á næsta ári, líklega um mitt ár, mögulega fyrr.

Það hefur aldrei gerst að Hæstiréttur hafi dæmt gegn áliti EFTA-dómstólsins svo áhugasamir ættu að fylgjast með álitinu þegar það kemur, eflaust í september. Ef það er samhljóða hinum áðurnefndu eru miklar líkur á skuldaleiðréttingu á flestum verðtryggðum neytendalánum húsa og bíla á næsta ári. Það sem í rauninni gerist er að stökkbreytingin, skotið sem kom vegna hrunsins, verður þá leiðrétt af Hæstarétti.

Ég hjó sérstaklega eftir því að hæstv. forsætisráðherra talaði um afnám verðtryggingar á neytendalánum sem væru í vinnslu. Það þykir mér mjög áhugavert vegna þess að á síðasta þingi samþykktum við, ef ég man það rétt, að bankarnir ættu að miða við 4% verðbólgu í lánasamningum. Svo eru þeir að vísu með önnur rök í þessum málaflutningi í Brussel en þetta er mjög áhugavert. Ég vek athygli á þessu sérstaklega. — Takk fyrir.