144. löggjafarþing — 2. fundur,  10. sept. 2014.

stefnuræða forsætisráðherra og umræður um hana.

[21:31]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Kæru landsmenn. Ríkisstjórnin boðar breytingar á lögum um höfundarétt. Tilefnið að stofnun Pírata í Svíþjóð á sínum tíma var einmitt sú staðreynd að framfylgni hefðbundins höfundaréttar á netinu er ósamhæf við frjálst og opið internet. Píratar hlakka til þeirrar umræðu og munu sýna frumkvæði í hugmyndasmíð í þeim efnum, með það að leiðarljósi að frjálst og opið internet geti lifað samhliða hagsmunum listamanna og höfunda.

Sömuleiðis munum við leggja fram þingmál um fangelsismál, fyrst og fremst tillögu um fullgildingu OPCAT-samningsins, en það er alþjóðlegur samningur um málefni og réttindi fanga. Sömuleiðis munum við halda áfram að berjast fyrir bættu tjáningarfrelsi og hafa þar sérstaklega til umfjöllunar meiðyrðalög og þær fangelsisrefsingar fyrir tjáningu sem almenn hegningarlög hóta.

Virðulegi forseti. Það er fíll í herberginu. Ég ætla ekki að fjalla um hann hér og nú vegna þess að sú umræða krefst síns eigin dagskrárliðar. Það eitt ætla ég að segja núna að fíllinn er ekki bundinn við ritstjórn eins fjölmiðils, heldur situr hann fastur í forarpytti staðreynda sem öllum eru aðgengilegar. Hann hverfur ekki þótt menn loki augunum og hann lætur ekki að stjórn.

Nú erum við loksins aftur komin saman eftir heldur langt sumarfrí til þess að sinna okkar hlutverki sem Alþingi Íslendinga. Ef frá er talið örstutt þing sem var haldið til að banna verkfall höfum við nú verið í sumarfríi í meira en þrjá og hálfan mánuð. Það er meira en fjórðungur af árinu. Það er ekki bara fyrrnefndur fíll sem kallar á þessa athugasemd. Í sumar áttu sér stað hörmungar af mannavöldum á Gasa í Palestínu sem Alþingi hefði vel mátt álykta um og ef ekki álykta þá að minnsta kosti að fjalla um í störfum þingsins í óundirbúnum fyrirspurnatíma eða með skriflegri fyrirspurn, eins og Píratar reyndu, eða gera eitthvað en ekkert gerðist. Hvers vegna ekki? Vegna þess að Alþingi var í þriggja og hálfs mánaðar löngu sumarfríi.

Á þeim tíma geta þingmenn ekki átt orðastað við ráðherra. Við getum ekki lagt fram fyrirspurnir til ráðherra. Við getum ekki óskað eftir sérstökum umræðum um mikilvæg mál. Við erum máttlaus. Eins og þingheimur veit er þetta oft og tíðum mjög erfitt starf með löngum og ströngum vinnudögum og auðvitað eru hér fulltrúar utan af landi sem vilja eiga stundir með fjölskyldum sínum og vinum. Þinglok eru erfið. Fjárlög eru erfið. En hvort sem við styttum sumarfríið verulega eða gerum sumarþing að venju eða breytum þingsköpum þannig að við getum sinnt eftirlitshlutverki okkar utan þinghalds þá gengur það einfaldlega ekki að eftirlitshlutverk Alþingis liggi niðri í meira en fjórðung af ári vegna sumarfrís þingmanna. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)

Ég legg til að eftirlitshlutverk Alþingis eigi að vera að fullu virkt allan ársins hring. Miðað við það sem á undan er gengið í sumar og í vor og um veturinn þar áður snýst það ekki bara um traust okkar til framkvæmdarvaldsins heldur traust þjóðarinnar til okkar. Jafnvel án fílsins í herberginu er ljóst að traust almennings til Alþingis er óþolandi lítið. Við verðum hreinlega að gera eitthvað til þess að auka þetta traust.

Ég trúi því ekki að vantraust almennings gagnvart okkur sé vegna þess að þingmenn séu í eðli sínu óheiðarlegir og vondir. Ég tel ekki að hægt sé að auka traust almennings á Alþingi með því einu að skipta út vondum þingmönnum fyrir góða eða að bæta hegðun þingmanna. Eina leiðin til þess að auka traust almennings á Alþingi er sú að breyta reglunum sem gilda, kerfinu sem hér er að verki, verklaginu sem við vinnum eftir.

Eins og margir vita á mesta samstarf þingmanna sér stað á fundum fastanefnda Alþingis. Fæstir vita þó hvað gerist á þeim fundum. Nú hef ég setið fundi í hv. allsherjar- og menntamálanefnd, efnahags- og viðskiptanefnd, fjárlaganefnd, stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd, utanríkismálanefnd og velferðarnefnd. Ég ætla að nýta þetta tækifæri og segja almenningi hvað gerist á þessum fundum.

Það eiga sér stað umræður; umræður við gesti og umræður milli þingmanna. Ég hef ekki orðið var við nein þverpólitísk samsæri á þessum fundum né reyndar samsæri yfir höfuð. Þvert á móti hefur mig oft langað til þess að benda fólki á umræður sem þar hafa átt sér stað, en ég get það ekki vegna þess að þessir fundir eru lokaðir. Nú geta vel verið lögmætar ástæður fyrir að halda lokaða fundi. Stundum þarf að tryggja að viðmælendur nefndarmanna þori að tjá sig. Stundum er um að ræða hagsmuni þjóðarinnar í samningum við önnur ríki. Sömuleiðis er munur á eðli nefnda, t.d. mundi maður búast við því að hv. utanríkismálanefnd héldi oftar lokaða fundi en t.d. velferðarnefnd.

Þótt fíllinn í herberginu sé vissulega til trafala skulum við ekki láta hann blinda okkur fyrir því sem við getum bætt án tillits til hans. Við getum bætt ímynd Alþingis ef við viljum, en þá verðum við að vilja það.

Ég legg til að við notum þetta þing til þess að auka traust almennings á Alþingi með því að breyta regluverkinu sem við vinnum eftir. Ég legg til að við eflum lýðræðið með öllum þeim leiðum sem við getum. Ég legg til að við sýnum að við sjáum fílinn í herberginu. Að lokum legg ég til að fundir fastanefnda Alþingis verði að jafnaði opnir. — Góðar stundir.