144. löggjafarþing — 2. fundur,  10. sept. 2014.

stefnuræða forsætisráðherra og umræður um hana.

[21:43]
Horfa

Kristján L. Möller (Sf):

Virðulegi forseti. Góðir landsmenn. Það verkefni sem blasir við öllum og þarf að fá úrlausn hið allra bráðasta er rýmkun gjaldeyrishafta. Höftin leiða til þess að hagkerfið ryðgar smám saman að innan. Gjaldeyrishöftin draga úr samkeppnishæfi Íslands, brengla verðlagningu og geta leitt til bólumyndunar bæði í verði eigna og hlutabréfa. Síðast en ekki síst koma þau í veg fyrir að lífeyrissjóðir okkar geti ávaxtað fé erlendis og hamla eðlilegri erlendri fjárfestingu hér á landi. Viðskiptaráð mat það svo að höftin gætu kostað Íslendinga samtals um 80 milljarða kr. á ári.

Við munum öll að ríkisstjórnin sagði að hún mundi aflétta höftunum á stuttum tíma, og sagði að stór skref yrðu tekin til þess á fyrstu sex mánuðum kjörtímabilsins. En hvað hefur gerst síðan? Ríkisstjórnin hefur verið ósammála um leiðir, forustumenn stjórnarflokkanna hafa tekist á um hvor þeirra hafi forræði fyrir málinu og á meðan hafa þeir tapað dýrmætum tíma.

Í dag verður senn liðið eitt og hálft ár frá kosningum, og það eina sem hefur gerst er að það er loksins búið að ráða ráðgjafa, ekkert annað! Af hverju var það ekki gert strax? Verkleysi ríkisstjórnarinnar, skortur á verkstjórn og innbyrðis ágreiningur innan stjórnarinnar er því miður ástæðan fyrir því að enginn sjáanlegur árangur hefur enn náðst í glímunni við gjaldeyrishöftin. Því miður benda ræður forustumanna stjórnarflokkanna í kvöld ekki til að neitt sé að gerast í þeim efnum. Þetta er þungur áfellisdómur yfir verkum ríkisstjórnarinnar.

Góðir tilheyrendur. Eitt af þremur aðaláherslumálum okkar þingmanna Samfylkingarinnar í upphafi þessa þings er tillaga til þingsályktunar um bráðaaðgerðir í byggðamálum. Við leggjum til fjölþættar aðgerðir sem um munar og skipta máli, þar á meðal þetta:

Aukið fjármagn verði veitt til sóknaráætlana og lykiláhrif heimamanna á úthlutun þess verði tryggð.

Fjárframlög til samgöngumála verði aukin, en þau voru skorin niður við samþykkt fjárlaga 2014, og enn frekari niðurskurður boðaður í fjárlögum næsta árs. Það er nánast eins og það sé hrun í samgönguframkvæmdum.

Sjávarbyggðum verði tryggð hlutdeild í tekjum af sérstöku veiðigjaldi og tryggt að aukinn byggðakvóti fari til Byggðastofnunar til að sinna verkefnum tengdum brothættum byggðum.

Ívilnanir verði veittar vegna nýfjárfestinga sem útfærðar verði á þann veg að nýtist sérstaklega uppbyggingu í landsbyggðunum.

Fylgt verði tímasettri áætlun um uppbyggingu dreifikerfis raforku til að tryggja afhendingaröryggi og fullnægjandi flutningsgetu um land allt, og að kerfi jöfnunar kostnaðar, sem tekið var upp í tíð jafnaðarmanna á síðasta kjörtímabili, verði eflt á þann veg að styrkir taki einnig til verslunar.

Virðulegi forseti. Góðir landsmenn. Landsbyggðirnar eiga víða í vök að verjast. Þess vegna skiptir höfuðmáli að haldið verði áfram með það stórátak í byggðamálum sem við stóðum fyrir á ríkisstjórnarárum okkar. Í vetur munum við með tillögum okkar leggja allt kapp á að brýna ríkisstjórnina til verka í byggðamálum. Burtu með dáðleysið!

Ég þakka þeim sem á hlýddu. — Góðar stundir.