144. löggjafarþing — 2. fundur,  10. sept. 2014.

stefnuræða forsætisráðherra og umræður um hana.

[22:00]
Horfa

Birgitta Jónsdóttir (P):

Forseti. Elsku landsmenn. Ég legg svo til og mæli með að þeir sem sitja heima með útrunna lottómiða setji þá í reynslubankann og minni sig á að það á aldrei að trúa þeim sem tamt er að segja ósatt.

Ég legg svo til og mæli með að þeir sem sitja heima og ærast yfir matarskatti eða afnámi jólauppbótar eða ráðalausum ráðherra, sem hafnar að axla ábyrgð á afglöpum, fylki liði um raunverulegar úrbætur sem standa af sér fjögurra ára loforðaflaum og hið langa tímabil vonbrigða og getuleysis þar á milli.

Ég legg svo til og mæli með að hér fari fram raunveruleg bylting með raunverulegum rótföstum breytingum sem lifa um aldir alda.

Ég legg svo til og mæli með að áður en að fólk fylkir liði að það horfist í augu við þá staðreynd að við búum í samfélagi og samfélag okkar þarf á ykkur að halda. Þetta þing og næstu þing og öll hin þingin munu ekki breyta neinu nema frá ykkur komi skýr skilaboð. Á ég að trúa því að skilaboðin ykkar séu þau að þið viljið bara þiggja brauðmola af auðvaldsins borði? Nei, ég trúi því ekki.

Manstu kannski ekki að þú — já, þú — ert einstaklingurinn sem breytir heiminum, ekki vegna þess að þú getur það heldur vegna þess að þér ber að gera það. Manstu kannski ekki að þú ert þjóðin, þetta óskabarn sem um stund hristir af þér viðjar og krafðist þess að þín sjálfsögðu mannréttindi og að samfélagssáttmálinn yrði virtur, að þrískipting valdsins væri ekki samruna hausar á þursi hefðarhelgunar innmúraðra heldur voldugar stoðir lýðræðisins. — Já, hey þú, óskabarn, lýðræðið þýðir að þú átt að ráða.

Ég er hér og bara hér til að minna þig á að þú átt val, val um að halda áfram í skuldahlekkjum sem nú smyrjast betur og ganga greiðar um stund með auknu útstreymi lánsfjár. En eitt verð ég að segja þér: Þetta eru samt hlekkir sem munu jafnvel fylgja þér yfir gröf og dauða. Já, þú átt val um að halda áfram eða rjúfa þennan vítahring, vítahring sem óskabarnið, þú, Íslendingur, átt jafn mikinn þátt í og valdaklíkan ógurlega, því að þú tekur við lyginni af eintómri óskhyggju aftur og aftur. Ætlar þú að búa hér til samfélag eða halda áfram að vonast eftir því að vera sætasta stelpan á ballinu sem fær að vera með í klíkunni?

Það er lygi, segi ég, að það sé ekki hægt að breyta þessu, það er marglaga lygi sem þú getur bara séð í gegnum hafir þú eitthvert hugrekki. Breytingar eru nefnilega ekkert hættulegar. Þær eru náttúrulögmál sem er ekki hægt að komast undan sama hvað. Í enska orðinu „revolution“ er falið merkilegt og táknrænt leyniorð takir þú r-ið í burtu. Bylting er ekkert sérstaklega gott orð því að í enska orðinu felst sannleikurinn að baki merkingu þess, þróun. Samfélag okkar er í þróun, þú ert í þróun, við erum öll í stöðugri þróun og þegar við horfumst í augu við þá staðreynd að sú samfélagsgerð sem virkaði kannski einu sinni er úr sér gengin þá verðum við að krefjast nýrrar og taka sjálf þátt í að búa hana til.

Ég vil, elsku fólkið mitt, sem hefur þrælað við að hlusta á þá sem sitja hér inni í umboði ykkar og halda sömu ræðuna ár eftir ár um sömu smáskammtalækningarnar á svöðusári hins farlama kerfis, að þið hugsið ykkar gang í kvöld þegar bláskjár er slokknaður. Hugsið um framtíðina sem er hverful og hvernig fræjum þið viljið sá til að hún verði ekki endurtekning á sömu mistökunum sem við ættum öll að hafa lært eitthvað af, ekki satt? Hvernig framtíð vilt þú? Hvernig á Ísland að vera eftir 100 ár, 50 ár, 20 ár? Framtíðin er í þínum höndum.