144. löggjafarþing — 3. fundur,  11. sept. 2014.

villur í fjárlagafrumvarpinu.

[10:35]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegi forseti. Það er rétt að það er ákveðið misræmi á milli þess sem segir í fjárlagafrumvarpinu og síðan í tekjuöflunarfrumvörpunum. Meginskýringin á þessu er sú að vinnu við fjárlagafrumvarpið, eins og hún hefur þurft að þróast vegna framlagningar í september, lýkur núna í júnímánuði í öllum meginatriðum, þ.e. talnabálkurinn er þá kláraður. Textavinnan fylgir síðan í framhaldinu.

Nú eru í fyrsta skipti í þingsögunni tekjuöflunarfrumvörpin lögð fram samhliða fjárlagafrumvarpi í septembermánuði. Það hefur ekki gerst áður. Tekjuöflunarfrumvörpin klárast í þessu ferli öllu síðar en talnabálknum er lokað í fjárlagafrumvarpinu. Meginatriðið er að sleginn er fyrirvari í texta í fjárlagafrumvarpinu þar sem sagt er að svona hafi staðan á vinnunni verið þegar málið var að klárast hvað fjárlögin snerti (Forseti hringir.) en á lokastigum málsins tóku þessar hugmyndir breytingum. Það var boðað að þessar tölur kynnu að breytast. (Forseti hringir.) Ég vek athygli á því að þær hafa allar breyst til hagsbóta fyrir almenning.