144. löggjafarþing — 3. fundur,  11. sept. 2014.

fjárlög 2015.

1. mál
[11:08]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Herra forseti. Það er svo fjarri vinstri mönnum í þessu landi að geta séð fyrir sér skattalækkun að þegar hún raunverulega birtist þeim með jafnskýrum hætti og í þessu máli trúa þeir því ekki að þetta sé hún. Þeir afneita henni með öllu. Það bara getur ekki verið að þetta sé hægt.

En það er hægt. (Gripið fram í.) Við erum með þeim skattkerfisbreytingum sem hér er verið að kynna til sögunnar að gefa eftir af ríkistekjum tæpa 4 milljarða. Hvert fara þeir 4 milljarðar? Þeir verða eftir hjá fyrirtækjum (Gripið fram í.) og þeir verða eftir hjá almenningi. Í þessu tilviki fyrst og fremst hjá almenningi sem greiðir þessi vörugjöld og greiðir þennan virðisaukaskatt. Það er íslenskur almenningur sem nýtur góðs af því að við leggjum fram tillögu um að draga úr tekjum ríkisins um 4 milljarða. Það heitir, hv. þingmaður, skattalækkun, það er skattalækkun.