144. löggjafarþing — 3. fundur,  11. sept. 2014.

fjárlög 2015.

1. mál
[11:18]
Horfa

Guðmundur Steingrímsson (Bf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Mér þykir svolítið undarleg sú áhersla hæstv. fjármálaráðherra að ríkið eigi ekki að gera alla hluti því að á sama tíma stendur hæstv. fjármálaráðherra að mjög umfangsmikilli ríkisvæðingu einkaskulda með 80 milljarða útgjöldum úr ríkissjóði sem er dálítið mikil vinstri stefna, mundi ég segja, en ekki hægri stefna.

Mig langar að spyrja út í einföldunina á virðisaukaskattskerfinu. Við í Bjartri framtíð erum mjög opin fyrir því að einfalda skattkerfið og minnka álögur og byrðar. Það hefur verið ákveðinn samhljómur um það mjög víða, annars staðar í öðrum ríkjum og hér, að það sé til eitthvað sem heitir nauðsynjar, heitt vatn, rafmagn, matur, að kunna að lesa. Margar þjóðir hafa lágt virðisaukaskattsstig á þær vörur. Er hæstv. fjármálaráðherra sammála því að þetta (Forseti hringir.) séu nauðsynjavörur og þar af leiðandi öðruvísi vörur en aðrar vörur? Og er hann sammála því að 12% er hærra (Forseti hringir.) en 7%?