144. löggjafarþing — 3. fundur,  11. sept. 2014.

fjárlög 2015.

1. mál
[11:26]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Mér finnst það einkenna málflutning hæstv. ráðherra að hann virðist ekki alveg geta ímyndað sér að til sé fólk í landinu sem eyðir talsverðum hluta af heildarútgjöldum sínum í mat. Hann talar um humar og kavíar — já, já, það er lúxusvara, þá mega menn bara fá þá lúxusvöru skattfrjálsa, ég mundi halda að það væri í samræmi við hugmyndafræði hæstv. ráðherra. En miklu frekar vil ég að einhverjir ríkir kallar fái skattalækkun en að einhverjir fátækir þurfi að borga of háan skatt. Mér þykir þetta augljóst.

Mér finnst skrýtið að hæstv. ráðherra snúi svo út úr málstað pírata að við viljum lifa án húsnæðis og matar. Við erum nú frekar á því að skilgreina internetið sem nauðsynjavöru ef eitthvað er. En við erum ekki að tala um internetið, við erum ekki að tala um föt, við erum ekki að tala um húsnæði, við erum ekki að tala um neitt nema mat í þessu tilfelli, sem er aftur nauðsynjavara.

Nú er tíma mínum lokið, því miður. Ég ætla að spyrja hæstv. ráðherra vegna þess að hann nefndi hér áðan að hann teldi ekki að ríkið ætti að standa að öllum verkefnum: (Forseti hringir.) Hvað finnst hæstv. ráðherra um það að trúmál séu á sviði ríkisins?