144. löggjafarþing — 3. fundur,  11. sept. 2014.

fjárlög 2015.

1. mál
[11:48]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. þingmaður segir að við séum að hækka neysluskatta. Stöldrum aðeins við þessa fullyrðingu. Neysluskattarnir sem eru hér undir eru annars vegar virðisaukaskattur og hins vegar vörugjöld sem eru ekkert annað en neysluskattar. Nettóáhrifin af breytingunum eru þau að ríkið verður af tæpum 3 milljörðum. Svo bætum við barnabótum inn í dæmið og þá er talan farin að nálgast 4 milljarða með útgjaldaaukningunni.

Nettóbreytingin er tap fyrir ríkissjóð upp á tæpa 3 milljarða. Það er ekki hækkun á sköttum, það er lækkun. Þegar vinstri stjórnin hækkaði hins vegar efra þrep virðisaukaskattsins var verið að grípa til tekjuöflunaraðgerðar sem hækkaði neysluskattana. Það er einfaldlega rangt að hér sé verið að hækka neysluskattana. Það er verið að lækka þá, enda lýsir það sér ágætlega í því að verðlag í landinu lækkar vegna þessara breytinga.

Þegar vinstri stjórnin hækkaði vörugjaldið á sínum tíma hækkaði verðlag í landinu. Það var áætlað að bara vegna breytinga á vörugjöldunum á sínum tíma mundi verðlag hækka um 0,1% og skuldir heimilanna um 1 milljarð. Það var bara breytingin á vörugjöldunum sem gerð var á sínum tíma. Við erum að vinda ofan af þessu. Við erum reyndar að gera gott betur, við erum að taka efra þrepið í það lægsta sem það hefur verið í.

Ég ætla ekki að fara í ágreining við hv. þingmann um mikilvægi þess að huga að stöðu lægstu tekjuhópanna. Mín skoðun er einfaldlega sú að virðisaukaskattskerfið sé ekki besta leiðin til að ná því markmiði og við erum að gera of vel við þá sem meira hafa á milli handanna með því að hafa of lágt neðra virðisaukaskattsþrep. Við erum að gera of vel við þá vegna þess að þeir verja um það bil (Forseti hringir.) sama hlutfalli af útgjöldum sínum í matvæli og lægri tekjuhóparnir.