144. löggjafarþing — 3. fundur,  11. sept. 2014.

fjárlög 2015.

1. mál
[11:50]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Hæstv. fjármálaráðherra skilur samhengi hlutanna miklu betur en hann lætur í skína hér við umræðuna. 11 milljarða kr. hækkun fyrir lífsnauðsynjar fyrir almenning er um það bil 100 þús. kr. á hvert heimili í landinu í hækkun á nauðsynjavörur.

Ef maður kaupir sér nýjan bíl, og kannski dýran sérstaklega, og hann er lægri í verði getur dæmið vissulega komið ágætlega út fyrir mann, eða ef maður kaupir sér merkjaþurrkara á 0,5 millj. kr. Fyrir þá sem eru ekki að kaupa slíkar vörur gætir lítið mótvægisaðgerða.

Það er móðgun við barnafjölskyldur í landinu þegar hæstv. fjármálaráðherra segist vera að auka við barnabætur til mótvægis því að hann eykur barnabætur minna en hann skerti þær um á yfirstandandi ári. Þær verða eftir þessar svokallaðar mótvægisaðgerðir lægri en þær voru í tíð síðustu ríkisstjórnar. Það eru engar mótvægisaðgerðir.

Þar fyrir utan er algerlega gengið fram hjá lýðheilsusjónarmiðum eins og hv. þm. Haraldur Einarsson hefur til dæmis bent á. Hér er verið að lækka gosdrykki um 22% meðan nauðsynjavörur eru hækkaðar um 5%.

Hæstv. fjármálaráðherra. Þessar tölur skipta venjulegt launafólk verulega miklu máli og þá sem þurfa að lifa á strípuðum bótum almannatrygginga með bara 3,5% hækkun núna um áramótin skipta þær mjög miklu máli, Bjarni Benediktsson.