144. löggjafarþing — 3. fundur,  11. sept. 2014.

fjárlög 2015.

1. mál
[12:08]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Frú forseti. Í fyrsta lagi vil ég minna á að með þeim skattbreytingum sem gerðar voru með fjárlögum síðasta árs varð tekjuauki fyrir ríkið. Hann birtist í því að með bankaskattinum, hækkun hans og breikkun á skattstofninum, sérstaklega með því að afnema undanþágur fyrir slitabúin, jukust tekjur ríkisins þrátt fyrir að létt væri á byrðum fyrir almenning og fyrirtæki. Þetta var nettóniðurstaðan. Þetta gerði okkur kleift að loka fjárlagagatinu á sama tíma og byrðar almennings léttust.

Varðandi kollsteypustjórnmálin get ég ekki látið hjá líða að minnast á þann ótrúlega fjölda skattalagabreytinga sem gerðar voru á síðasta kjörtímabili. Það var sannarlega kollsteypuaðferðin við að taka á skattkerfinu. Í nær öllum tilvikum fólust breytingarnar í því að skrúfa upp skatta, hækka og breikka skattstofna. Við viljum vinda ofan af þeirri stefnu. Við höfum boðað það allt frá því að þessar breytingar voru kynntar og erum byrjuð að fylgja því eftir nú. Það mun ekki leiða til neins annars en þess að svigrúm almennings í landinu mun vaxa.

Við þurfum ekki að gera ráð fyrir halla á fjárlögum vegna þessa þar sem hagvöxtur hefur verið ágætur og tekjustofnar ríkisins hafa verið að styrkjast. Það er meginatriðið. Við erum þannig að fá alvöruviðspyrnu fyrir því að gera betur í heilbrigðiskerfinu. Húsnæðisvandi Landspítala er til staðar. Vandamálið þar er kannski fyrst og fremst að umfang verksins er svo gríðarlega mikið. (Forseti hringir.) Og ekki tók ríkisstjórnin í arf neinar mótaðar hugmyndir, (Forseti hringir.) hvað þá heldur fjármagnaðar, frá ríkisstjórninni sem fór frá á síðasta ári.