144. löggjafarþing — 3. fundur,  11. sept. 2014.

fjárlög 2015.

1. mál
[12:29]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir að vitna ekki í Margréti Thatcher í ræðu sinni. En þegar rætt er um stöðu lífeyrisþega, aldraðra og öryrkja er rétt að halda því til haga að formaður Landssambands eldri borgara og formaður Öryrkjabandalagsins lýstu því yfir í útvarpi í morgun að ekki hefðu verið efnd kosningaloforðin gagnvart þessum hópum og í frumvarpinu væri enn verið að rýra hlut þeirra gagnvart öðrum í landinu.

Hv. þm. Vigdísi Hauksdóttur til upplýsingar er enginn annar að borga ellilífeyrinn fyrir aldraða á Íslandi. Sú kynslóð sem nú nýtur ellilífeyris á Íslandi hefur sannarlega unnið fyrir hverri krónu sem hún fær greidda í ellilífeyri og fyrir löngu lagt inn fyrir þeim réttindum sínum og það er hvorki Vigdís Hauksdóttir né neinn annar sem er að borga það fyrir hana.

En ég vildi spyrja formann fjárlaganefndar hvort ríkisstjórnin taki ekkert mark á formanni fjárlaganefndar af því hún hefur nú nýlega haft að engu athugasemdir þingmannsins við frammúrkeyrslu stofnana, bæði fjármálaráðherra og atvinnuvegaráðherra hafa gert það opinberlega, og nú hefur formaður fjárlaganefndar lýst áhyggjum yfir hækkun á matarskatti. Viðbrögð forsætis- og fjármálaráðherra við þeim opinberu yfirlýsingum formanns fjárlaganefndar er að hækka matarskattinn ekki úr 7 í 11% eða um 8,8 milljarða heldur úr 7 í 12%, um 11 milljarða. Maður hlýtur að spyrja hv. formann fjárlaganefndar hvort hún styðji þessa gríðarlegu hækkun á sköttum á lífsnauðsynjar fyrir almenning í landinu eða hvort hún ætli að standa gegn slíkum aðgerðum til skerðingar á lífskjörum þeirra sem lægst hafa launin, enda hefur hæstv. forsætisráðherra Sigmundur Davíð Gunnlaugsson sjálfur bent á að það er löngu sannað að hækkanir á skatt á mat bitna verst á hinum lægst launuðu.