144. löggjafarþing — 3. fundur,  11. sept. 2014.

fjárlög 2015.

1. mál
[12:32]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Helga Hjörvar fyrir það að koma hér í andsvar við mig. Það sem þingmaðurinn sagði var athyglisvert, að greiðslur til eldri borgara hefðu ekki nokkurn skapaðan hlut að gera með bótagreiðslur og annað því að eldri borgarar hafi unnið sér inn þann rétt. Mikið er ég sammála þingmanninum. En það er einkennilegt að þingmaðurinn komi hingað upp og bendi á þessa staðreynd því að á síðasta kjörtímabili þegar norræna velferðarstjórnin var hér við völd þá voru teknir 16 milljarðar af eldri borgurum — 16 milljarðar. Og ekki nóg með það heldur gerðist norræna velferðarstjórnin svo ósvífin að það var ruðst í fyrsta sinn inn í grunnbætur ellilífeyris. Þetta var á vakt vinstri flokkanna sem kenna sig við velferð.

Ég held því að þingmaðurinn ætti að gleðjast yfir því sem ég fór yfir í ræðu minni að sú ríkisstjórn sem nú starfar og hefur einungis setið í 15 mánuði er búin að bæta skaða síðustu ríkisstjórnar upp á rúmlega 10 milljarða til þessa málaflokks. Það er kannski of gott til að vera satt fyrir þingmanninn, út af því er hann kannski svona pirraður.

Varðandi hina spurninguna, virðulegi forseti, verð ég að vísa til þess að við ræðum hér fjárlagafrumvarpið. Tekjuöflunarfrumvörp ríkisstjórnarinnar koma á dagskrá þingsins í næstu viku og þá skal ég glöð svara þeim spurningum sem þingmaðurinn bar fram. En ég bið hv. þm. Helga Hjörvar vinsamlegast um að halda sig í réttu frumvarpi.