144. löggjafarþing — 3. fundur,  11. sept. 2014.

fjárlög 2015.

1. mál
[12:36]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þingmaðurinn greip í gamalkunnugt stef þegar gerðir síðustu ríkisstjórnar voru gagnrýndar: Hér varð hrun. Hér voru einstakar aðstæður uppi þannig að við urðum að gera þetta á þennan hátt. Við höfðum leyfi til þess og þetta var eitthvað sem við þurftum að gera. — Þetta er alltaf sami söngurinn.

Hið svokallaða „Hér varð hrun“ Samfylkingarinnar varð 2008. Þetta hefur tekið ómældan tíma hér í þinginu því að það er alveg sama hvernig ríkisstjórnin var gagnrýnd á síðasta kjörtímabili viðkvæðið var: Hér varð hrun.

Ég minni á að ríkisstjórnin gat samt, þrátt fyrir að hér hafi orðið hrun, eytt fleiri milljörðum í ESB-umsókn. Hátt í 2 milljarðar fóru í stjórnlagaþingið. Það vantaði enga peninga í gæluverkefni hjá þeirri ríkisstjórn. Hún þurfti ekkert að fara inn í ellilífeyrinn á síðasta kjörtímabili fyrir 16 milljarða. Það er bara fundin einhver ástæða til að rökstyðja það að farið var inn í grunnlífeyrinn meira að segja.

Gagnrýni þingmanna síðustu ríkisstjórnar er því hálfhol að innan þegar allt er skoðað í réttu samhengi. En það er þeirra kúnst að segja hlutina nógu oft og halda að fólk trúi því í kjölfarið. Ég man betur og veit betur, virðulegi forseti.

Þingmaðurinn fór yfir það hvernig ég ætlaði að fara með frumvarpið um breytingar á virðisaukaskatti. Það skal upplýst hér, virðulegi forseti, að ég er undrandi á því að svo reyndur þingmaður eins og hv. þm. Helgi Hjörvar er viti ekki að tekjuöflunarfrumvörpin fara til hv. efnahags- og skattanefndar, en fjárlaganefnd sér um gjaldahlið fjárlaga og tekur fjárlagafrumvarpið til sín. Mér finnst frekt að ganga á þá nefnd með því að vera með yfirlýsingar hér. (Forseti hringir.) Þessu er því vísað til efnahags- og skattanefndar (Forseti hringir.) varðandi virðisaukaskattinn.