144. löggjafarþing — 3. fundur,  11. sept. 2014.

fjárlög 2015.

1. mál
[12:38]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Mér fannst dálítið skrýtið það sem hv. þingmaður sagði um að fyrir hverja krónu sem ríkið borgar út hefur einhver annar lagt til vegna þess að hv. þingmaður lætur svolítið eins og það sé ekki skilningur á þessu. En ef ekki væri skilningur á þessu væru jafnaðarmenn ekki að leggja til að ríkið mundi borga hærri skatta heldur fátækir. Það liggur í eðli hlutarins, og um þetta er eftir því sem ég fæ best séð fullkominn skilningur allra.

Með hliðsjón af því, vegna þess að hv. þingmaður nefnir þetta, langar mig aðeins að velta fyrir mér upp að hvaða marki hv. þingmanni finnist eðlilegt að ríkið fjármagni verkefni, og hvaða verkefni það séu sérstaklega, vegna þess að hér er oft tekist á um hægri og vinstri. Hæstv. fjármálaráðherra talar um að það sé hugmyndafræðilegur ágreiningur um það hvaða verkefnum ríkið eigi að taka þátt í. Sá ágreiningur er sjálfsagður og auðvitað alltaf til staðar.

Það er eitt fyrirbæri sem við erum með á Íslandi sem heitir þjóðkirkjan, sem ég kalla reyndar venjulega ríkiskirkju einmitt vegna þess að þetta er kirkja sem tilheyrir ríkinu. Þetta er tiltölulega óvenjulegt fyrir vestræn lýðræðissamfélög en þó er þetta til í Danmörku, Bretlandi, Grikklandi og að mig minnir í Liechtenstein og svo auðvitað hér. Þetta hefur verið á einhverju undanhaldi á Norðurlöndunum, sem betur fer að mínu mati. Ég velti fyrir mér hvað hv. þingmanni finnst um það að ríkið eyði um 1,5 milljörðum á ári í kirkju, kirkju sem varðar trú fólks, trú fólks sem eðli málsins samkvæmt er persónulegt fyrirbæri, svona álíka persónulegt og persónulegur lífsstíll, kynlífið eða eitthvað því um líkt. Trúmál eru mjög persónuleg og einstaklingsbundið fyrirbæri. Mér er algjörlega fyrirmunað að skilja hvernig mönnum tekst að komast að þeirri niðurstöðu (Forseti hringir.) að það sé hlutverk ríkisins að fjármagna slíka stofnun. Ég velti því fyrir mér (Forseti hringir.) hvað hv. þingmanni finnst um það.