144. löggjafarþing — 3. fundur,  11. sept. 2014.

fjárlög 2015.

1. mál
[13:40]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Frú forseti. Staðreynd málsins er sú að skuldaleiðréttingaaðgerðunum er beint sérstaklega að þeim sem skulda. Það er ekki flóknara en svo. Það er mikill yfirgnæfandi meiri hluti þeirra sem skulda verðtryggð lán sem sækjast eftir leiðréttingu þeirra lána. Það er eiginlega umræða sem við verðum að taka sérstaklega hvernig við náum best árangri í því. Þetta er skilvirk, einföld aðgerð sem mun mjög verulega auka ráðstöfunartekjur heimilanna og henni er beint sérstaklega að þeim hópi sem verst varð úti vegna verðbólguskotsins.

Svo vil ég bara nefna það hér að það hefur verið aukið mjög við framlög til Landspítalans. Það gerðum við strax í fyrra. Þau framlög halda sér að sjálfsögðu. Það er lítils háttar aukning á framlögum til þess að efla rekstrargrunn Landspítalans og Fjórðungssjúkrahússins á Akureyri. Við mundum mjög gjarnan vilja halda áfram á þeirri braut en teljum að forsenda þess að það sé hægt sé sú að efnahagslífið haldi áfram að taka við sér. Við ætlum ekki að gera það með þeim hætti að það verði slegin lán fyrir því.

Annað sem er að gerast í opinberri þjónustu og vert er að nefna eru stóraukin framlög til framhaldsskólastigsins og 500 milljónir til þess að efla löggæslu sem kom inn í fjárlagafrumvarpið fyrir þetta ár. Þetta eru framlög sem halda sér fram á næsta ár. Auk þess hefur verulega verið bætt við framlög til almannatrygginga til þess að bæta stöðu aldraðra og öryrkja. Þetta höfum við getað gert.

Ef við hefðum varið um helmingi skattanna á bankana í einhver af þessum verkefnum og tekið mismuninn síðan og varið til skuldalækkunar hefðu það verið um 10 milljarðar sem við hefðum haft til ráðstöfunar fyrir skuldalækkun. Mér finnst þetta ágætisdæmi um það hversu litlu það skilar til langs tíma að vinna með slíkar tölur, kreista út úr rekstri ríkisins einhverja 5–10 milljarða á ári samanborið við það sem eignasala mundi gera eða uppstokkun (Forseti hringir.) á efnahagsreikningi ríkisins, vegna þess að 10 milljarðar eru rétt um 15% (Forseti hringir.) bara af vöxtunum sem við erum að greiða í ár, (Forseti hringir.) slíkar eru skuldirnar. Þær eru tæpir (Forseti hringir.) 1.500 milljarðar.