144. löggjafarþing — 3. fundur,  11. sept. 2014.

fjárlög 2015.

1. mál
[13:43]
Horfa

Guðmundur Steingrímsson (Bf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Við erum náttúrlega að tala hér um 80 milljarða í heild sinni miðað við áætlanir ríkisstjórnarinnar af innkomu af bankaskatti næstu fjögur árin. Mér finnst merkilegt ef hæstv. fjármálaráðherra telur að ekki hefði verið hægt að nota þá peninga, 80 milljarða, í verkefni sem við blasa eftir mesta efnahagshrun þjóðarinnar.

Ég hefði nú viljað sjá það reikningsdæmi alla vega, ef helmingur af 80 milljörðum, t.d. 40 milljarðar hefðu verið veittir í að greiða niður skuldir, sem sparar. Ef greitt er inn á höfuðstól opinberra skulda þá sparar það um alla ókomna framtíð vaxtagjöld, þó það sé ekki nema um milljarð þá eru komnir 10 milljarðar á tíu árum þar. Ég hefði viljað sjá það dæmi reiknað til enda í staðinn fyrir að seilast inn í lífeyrissparnað framtíðarinnar og eyða honum núna eins og aðgerðirnar fela að mörgu leyti í sér.

Ég hefði líka viljað sjá það dæmi reiknað til enda hvað það kostar að bíða með byggingu nýs Landspítala. Hvenær ætla menn að fara í það? Hvað kostar að hafa vegina eins og þeir eru? Það var nánast ekki hægt að fara í neitt viðhald á vegum eftir hrun. Við þurfum vegi, er það ekki? Þetta er bara uppsafnað. Það er sagt að verið sé að veita meiri peninga í þetta núna — jú, en ekki nóg, ekki nóg miðað við það hve mikið þurfti að skera niður. Þetta er ekki viðsnúningur miðað við lögbundnar skyldur Landspítalans og margra annarra í heilbrigðiskerfinu; það þarf þá að breyta þeim skyldum.

Er til dæmis verið að auka framlag til framhaldsskólanna? Fjárlagafrumvarpið er dálítið flókið hvað það varðar. Það er sagt: Jú, 400 milljónir inn til að bæta rekstrargrundvöll framhaldsskólanna. Í næstu setningu eru um það bil 270 milljónir teknar út vegna aðhaldskröfu og svo enn meira vegna (Forseti hringir.) breytingar á reiknireglu vegna fjölda nemenda. Hér þurfa menn því að tala skýrar. (Forseti hringir.) Er verið að setja pening í framhaldsskólana (Forseti hringir.) eða ekki? Mér sýnist ekki.