144. löggjafarþing — 3. fundur,  11. sept. 2014.

fjárlög 2015.

1. mál
[14:01]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S):

Virðulegi forseti. Við ræðum hér fjárlögin og hefur verið áhugavert að fylgjast með þessari umræðu. Ég held að það sé ekki hægt að segja að við séum komin á þann stað að við séum að ræða meginþætti frumvarpsins eða myndina í stóra samhenginu en það mun kannski lagast eftir því sem líður á, hver veit.

Stóru útgjöldin, stóru verkefnin hjá okkur eru skuldir ríkissjóðs. Þær eru það miklar að vaxtagreiðslur nema sem svarar tvöföldum rekstrarkostnaði Landspítalans og þar inni eru ekki lífeyrissjóðsskuldbindingar. Þær eru rúmlega 400 milljarðar. Það ætti þess vegna að vera algert markmið hjá okkur öllum að hafa eins mikinn afgang og mögulegt er því að skuldir í dag þýða það að við erum að taka lán hjá börnunum okkar.

Nú veit ég ekki hvernig umræðan mun snúast eða hvernig tillögur hv. stjórnarandstöðu munu verða. En ef þær verða eins og í fyrra þá munu þær ekki taka mið af þessari staðreynd. Reyndar var það þannig að þegar síðustu fjárlög voru lögð fram kom einn stjórnmálaflokkur, Björt framtíð, fram með tillögur sem miðuðu að því að það yrði verulegur halli á fjárlögum. Það segir okkur að við erum ekki komin á þann stað að ná samstöðu um stóru verkefnin, stóru málin.

Annað verkefni sem er fram undan og nálgast hratt er breytt aldurssamsetning þjóðarinnar. Hvað þýðir breytt aldurssamsetning? Hún þýðir að við þurfum að leggja meiri áherslu á að forgangsraða í þágu heilbrigðisþjónustunnar sérstaklega. Kostnaður í heilbrigðisþjónustu vegna þeirra sem eru 65 ára og eldri er fjórum sinnum meiri en fyrir þá sem yngri eru. Það er því algerlega ljóst að það er grunnforsenda að fjárlögin séu hallalaus. Það er mjög ánægjulegt að hæstv. fjármálaráðherra leggi núna aftur fram hallalaus fjárlög. Okkur tókst að halda þau við árið í ár og það er lykilatriði að við verðum á þeim stað aftur.

Það er líka annað sem er að mínu áliti mikilvægt. Ég get ekki séð hvernig við getum komið okkur á þann stað sem við viljum vera á án þess að við tileinkum okkur þau vinnubrögð sem þær þjóðir sem við viljum bera okkur saman við hafa, sem eru einfaldlega þau að hafa aga á ríkisfjármálum. Hvað þýðir agi á ríkisfjármálum? Það þýðir að við erum með það fyrirkomulag að menn fari ekki fram úr fjárlögum. Það er kannski ekki séríslenskt en sú menning að einstaka stofnanir fari fram úr fjárlögum er í það minnsta ekki til staðar í þeim löndum sem við viljum bera okkur saman við. Það er að vísu til ákveðin aðferð, sveigjanleiki sem viðkomandi ráðuneyti hafa sem felur það í sér að hægt er að millifæra innan málaflokka og stofnanir geta — í það minnsta ef við berum okkur saman við Svíþjóð — fengið lán ef þær fara fram yfir hjá ríkisstofnunum og greitt það til baka á nokkrum tíma með vöxtum.

Ég vonast til þess að við klárum ekki bara fjárlögin með afgangi heldur líka að við göngum frá frumvarpi um opinber fjármál sem hæstv. fjármálaráðherra hefur lagt fram, gerum það að lögum, og sömuleiðis frumvarpi um markaðar tekjur. Við höfum algera sérstöðu innan landa OECD hvað varðar markaðar tekjur. Það gerir alla ákvarðanatöku og umræðu um ríkisfjármál og framkvæmd ríkisfjármála sérkennilega að hafa svona hátt hlutfall af mörkuðum tekjum. Það má vera að við finnum ákveðna þætti sem verða að vera markaðir en þetta er allt of mikið eins og staðan er núna.

Nú er það stundum þannig að ákveðnir stjórnmálamenn og stjórnmálahreyfingar trúa því, og kannski er það rétt, að ef sami hluturinn er sagður nógu oft muni hann síast inn hjá fólki, fólk fari að trúa honum jafnvel þótt hann eigi sér ekki stoð í raunveruleikanum. Þannig hafa talsmenn stjórnarandstöðunnar, sumir hverjir í það minnsta, klifað á því að þessi ríkisstjórn hafi forgangsraðað í þágu ríka fólksins. Það er meira að segja svo að þeir sem voru í ríkisstjórn á síðasta kjörtímabili koma hér og kvarta undan því að ekki sé nægilega mikið gert í heilbrigðismálum. Það er örstutt síðan þessir flokkar voru í ríkisstjórn og þeir fara jafnvel fram og segja: Það þarf að gera eitthvað í málefnum nýs Landspítala.

Hér kom hv. þingmaður og formaður Vinstri grænna og fór að lýsa því hvað síðasta ríkisstjórn gerði í því máli. Hún fór að lýsa því sem var verk ríkisstjórnarinnar þar á undan, verkefni sem ég setti af stað; að fá norska sérfræðinga að tillögu Huldu Gunnlaugsdóttur, fyrrverandi forstjóra Landspítalans, til að minnka umfangið á nýjum Landspítala. Því lýsti forustumaður í síðustu ríkisstjórn sem þeirra verki. Það má kannski segja að síðasta ríkisstjórn hafi gert vel að stoppa ekki það sem ég setti af stað, en það er kaldhæðnislegt að þetta er það eina sem síðasta ríkisstjórn getur stært sig af þegar talað er um nýjan Landspítala.

Þegar bankahrunið varð þá komu hér sérfræðingar frá öðrum löndum, sérstaklega Norðurlöndunum, og ráðlögðu okkur hvað við ættum að gera. Eitt af því var að reyna að halda uppi atvinnu með öllum tiltækum ráðum og eitt af þeim verkefnum sem menn litu sérstaklega til þá var nýr Landspítali. En það var ekkert gert hvað það varðaði hjá síðustu ríkisstjórn.

Ég vek athygli á því að það er þessi ríkisstjórn sem hækkaði fjárlögin á þessu ári til heilbrigðismála um 10 þúsund millj. kr.(KLM: Um 70 millj. til byggingar Landspítala …) 4,6 milljarðar af því fór í rekstur Landspítalans. Nú kynni einhver að segja: Voru fjárlögin 2013 kannski einhvers konar kreppufjárlög? Nei, það voru kosningafjárlög. Ég held að það hafi verið erfitt að finna þann hóp sem ekki var lofað einhverjum fjármunum í þeim kosningafjárlögum. En ekki var lofað neinu um Landspítalann eða neitt sett í hann.

Við getum skoðað þróun útgjalda frá 2007–2012. Ég nota árið 2007 vegna þess að 2008 kemur enn þá verr út og það eru svolítil skekkjufjárlög eins og við þekkjum. Þá varð bankahrun, þrátt fyrir að þá hafi sjálf Samfylkingin verið í ríkisstjórn, þótt hún kannist ekki við það, og var jafnvel með bankamálin. Ég var í þeirri ríkisstjórn og ég held að ég hafi tekið ágætlega eftir því hvað gerðist á þeim vettvangi. Ég man ekki eftir viðvörunum Samfylkingarinnar um bankahrun, því síður hjá VG.

En ef við förum yfir það hvað var að stækka mest á þessum tíma, í prósentum talið, voru það þá heilbrigðismálin? Á þessum tíma jukust framlög í fjárlögum að meðaltali um 30%, við getum sagt að það sé einhvers konar vísitala. Þá erum við með hluti eins og Vatnajökulsþjóðgarð, ýmis verkefni atvinnu- og nýsköpunarráðuneytisins, ýmis verkefni utanríkisráðuneytisins sem hækkuðu um mörg hundruð prósent, Náttúruminjasafn um rúmlega 200%, Fjármálaeftirlitið um 200%, Náttúrufræðistofnun um 112%, skattrannsóknarstjóri 105%, Sinfónían 102%. Það voru ekki heilbrigðismálin. Landspítalinn náði ekki upp í 30%.

Ég ætla ekki að lesa þetta allt saman upp, en ég mun vekja athygli á þessu, menn þurfa ekki að hafa áhyggjur af því. En það er ekki nokkur leið að halda því fram að hér hafi verið forgangsraðað í þágu heilbrigðisþjónustunnar í tíð síðustu ríkisstjórnar. Það er engin leið að halda því fram.

Samfylkingin og Vinstri grænir ættu bara að koma og segja hlutina eins og þeir eru. Þessir flokkar hafa áhuga á heilbrigðismálum þegar þeir eru ekki í ríkisstjórn. Ef við förum yfir feril ríkisstjórnar þeirra má segja að þegar kemur að heilbrigðismálum þá tókst þeim að loka St. Jósefsspítala, sem þeir lofuðu fólkinu að vísu að gera ekki, án þess að koma með neitt í staðinn. Við munum nú eftir því hvernig menn létu þegar ég kom með Kragatillögurnar á sínum tíma.

Virðulegi forseti. Núverandi ríkisstjórn hefur farið í að lækka gjöld og skatta og það fer ógurlega í taugarnar á sumum stjórnmálamönnum. Ég verð að viðurkenna að ég átti ekki alveg von á því að menn færu í fullri alvöru að gagnrýna það að henda út handónýtu kerfi vörugjalda eins og komið hefur fram.

Hér hafa menn komið upp og stært sig af því að þeir séu að koma með breytingar á vörugjaldskerfinu þannig að það verði sama vörugjald á brauðrist og samlokugrilli. Segir það ekki allt sem segja þarf? Finnst fólki skrýtið þó almenningur segi: Alþingismenn eru ekki í því sem skiptir máli, þeir eru ekki í stóru málunum, þegar vinna alþingismanna fer í þessa hluti?

Í morgun fór ég í fjölskyldufyrirtæki í byggingargeiranum og þau sögðu mér reynslusögu úr þessu vörugjaldsfrumskógarkerfi. Þau sýndu mér bréf sem þau þurftu að kaupa lögfræðinga til að gera, til að ná því fram að viðkomandi vörur væru í hinum og þessum tollflokki. Af hverju? Annars mundu leggjast á þær mikil vörugjöld. Og bara svona til upplýsingar þá er lagt vörugjald á viðarklæðningu á gólf en ef maður setur hana á vegg eða í loft þá er hún ekki með vörugjaldi. Bárujárn er án vörugjalds en ef þú setur flísar þá eru þær með vörugjaldi. Ef ákveðnar tegundir af flísum eru sagaðar eða það sem kallað er þvegnar er lagt vörugjald á þær, annars ekki. Ef það er ekki einföldun að taka þetta rugl út þá er einföldun ekki til. Það að fullorðið fólk hafi þurft að eyða tíma sínum í þetta, opinberir starfsmenn og fólk sem skapar verðmæti úti í þjóðfélaginu, er auðvitað þyngra en tárum taki.

Hér er komið fjárlagafrumvarp. Sem betur fer kemur það mjög snemma, bæði útgjöldin og tekjurnar. Við höfum góðan tíma til að fara vel yfir það. Ég vona að menn nái samstöðu um að lækka gjöld á almenning enn frekar, skila meiri afgangi og styrkja grunnstoðirnar. Það er í það minnsta það sem ég mun leggja áherslu á í þessari vinnu eins og áður.