144. löggjafarþing — 3. fundur,  11. sept. 2014.

fjárlög 2015.

1. mál
[14:18]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Af því að hv. þingmaður endaði ræðu sína á að tala um heilbrigðismálin vil ég benda á þá staðreynd að síðasta ríkisstjórn forgangsraðaði ekki í þágu heilbrigðismála. Ég bendi á þá staðreynd. Ég bendi á þá staðreynd að þessi ríkisstjórn gerði það. Ég bendi á þá staðreynd að þegar formaður Vinstri grænna talaði áðan um hvað síðasta ríkisstjórn hefði gert í landspítalamálum er hún að vísa í störf sem ég setti af stað. Ég vísa í þá staðreynd. Ég held að það skipti máli að hv. þingmaður sé algerlega meðvitaður um þá staðreynd þegar hann ræðir þessi mál.

Varðandi skattbreytingarnar styð ég að sjálfsögðu þær breytingar í skattkerfinu sem miða að því að lækka gjaldþol almennings. Hv. þingmaður var ekki að byrja í stjórnmálum í gær, hann er ekki fæddur í gær og eðli málsins samkvæmt lít ég á þetta í samhengi; nema hvað?

Erum við í alvöru að tala um að ef við ætlum að einfalda skattkerfið eigum við ekki að líta á það í heildarsamhengi? Erum við í alvöru þannig að þegar við ræðum þessar skattkerfisbreytingar eigum við bara að taka einn þáttinn út? Eigum við ekki að ræða það í samhengi? Hvernig ætla menn að breyta skattkerfinu án þess að líta á allar tillögurnar i samhengi? Er það það sem hv. þingmaður er að segja? Eigum við að taka einn þátt fyrir sig og láta eins og það sé ekkert annað í gangi? Hvernig halda menn að sú umræða yrði, ég tala ekki um niðurstöðuna?