144. löggjafarþing — 3. fundur,  11. sept. 2014.

fjárlög 2015.

1. mál
[14:20]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Lækkun á gosdrykkjum eða gírkössum, Lexus eða Land Cruiser skiptir engu máli fyrir fólk sem þarf að kaupa sér mat, lífsnauðsynjar, hita og rafmagn sem hækkar verulega. Hv. þm. Guðlaugur Þór Þórðarson fær ekki vikið sér undan því að hann er núna stuðningsmaður stærstu einstöku skattahækkunar frá efnahagshruninu 2008 og það er skattahækkun sem lendir á öllum almenningi í landinu. Það er eðlilegt að hv. þingmaður vilji ekki tala um fjárlögin, vilji ekki tala um hækkun sjúklingagjaldanna, vilji aðeins tala um það hvað hann var að gera í heilbrigðisráðuneytinu einhvern tíma fyrir hrun. En vegna þess að hv. þingmaður nefnir það var það í tíð síðustu ríkisstjórnar sem allur undirbúningur og hönnun að nýjum Landspítala fór fram, þrátt fyrir erfiða tíma, og það er allt tilbúið til að ráðast í verkefnið. Það er óskiljanlegt að nú þegar fjármunir eru loksins til staðar sé ekki lagt af stað í þann mikilvæga leiðangur.

Það eru bara 70 milljónir í að bjóða út eða endurhanna skilmálana um sjúkrahótel og ég vil nota tækifærið og spyrja hv. þm. Guðlaug Þór Þórðarson: (Forseti hringir.) Stendur til að einkavæða sjúkrahótel á nýjum Landspítala, einkavæða aðalávinninginn af hagræðingunni sem felst í því að reisa nýjan Landspítala? Á að einkavæða sjúkrahótel á Landspítalanum?