144. löggjafarþing — 3. fundur,  11. sept. 2014.

fjárlög 2015.

1. mál
[14:21]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þekki hv. þingmann, við höfum starfað saman lengi. Hv. þingmaður hefur kannski ekki verið alveg inni í þessum málum og sjúkrahótelið er sannarlega ekki aðalávinningurinn af nýjum Landspítala. Menn segja í hverri einustu ræðu: Já, auðvitað gerðum við ekkert í þessu en við ætluðum að gera það núna. Það er alveg sama hvað sagt er, menn komast ekkert hjá þessu, tækifærið var til staðar og þeir lögðu upp með að reyna að flýta byggingu nýs Landspítala þegar ekkert var að gera í byggingargeiranum. En síðasta ríkisstjórn gerði það ekkert. Það er bara þannig.

Og talandi um mat sem lífsnauðsynjar, svo sannarlega er matur lífsnauðsynlegur. En er það það eina sem er lífsnauðsynlegt? Er það það eina sem er lífsnauðsynlegt hér á Íslandi? Þekkið þið einhvern einstakling sem þarf ekki fatnað, sem þarf ekki húsnæði og þarf bara mat? Þekkið þið einhvern? Er einhver nakinn maður hér úti á vellinum sem þarf ekki húsnæði, bara mat? Auðvitað eru lífsnauðsynjar miklu meira en bara matur. Það sér það hver maður.