144. löggjafarþing — 3. fundur,  11. sept. 2014.

fjárlög 2015.

1. mál
[14:30]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Við nýtum í sjálfu sér ekki bankaskattinn eyrnamerktan í nokkurn skapaðan hlut, við öflum tekna fyrir ríkissjóð og síðan erum við með allra handa hluti sem eru í gangi.

Það sem ég sakna í þessari umræðu, þegar við erum að tala um ábyrgðarleysi, er hið stórskrýtna húsnæðiskerfi sem við erum búin að hafa hér um áratugaskeið, sem er eitt það alvitlausasta sem hugsast getur. Við erum með nokkuð sem heitir vaxtabætur sem hvetur fólk til að skulda. Við fórum hér út í hátt lánshlutfall, gengum á undan í þessum sal, og það hvetur sömuleiðis fólk til að skulda. Til að bíta höfuðið af skömminni taka skattgreiðendur alla áhættuna af Íbúðalánasjóði. Núna er ríkisábyrgð á Íbúðalánasjóði 900 milljarðar kr. Því var frestað á öllu síðasta kjörtímabili að taka á vanda Íbúðalánasjóðs.

Ef ég á að vera gagnrýninn á þetta fjárlagafrumvarp og mína ríkisstjórn þá finnst mér að menn þurfi að ganga harðar fram í því að taka á þeim vanda sem er hjá Íbúðalánasjóði því að hann fer ekki frá okkur. Ég sé eftir þeim fjármunum sem við þurfum að setja á hverju einasta ári í ríkisbanka, engum til gagns. Þetta er gott dæmi um það að þegar ekki má ræða hlutina, þegar það er samstaða, alla vega hjá stórum hluta þjóðarinnar, þessum með dagskrárvaldið, að eitthvað sé svo heilagt að það megi ekki ræða það, eins og Íbúðalánasjóður var og skýrslan um Íbúðalánasjóð sýnir svo berlega, sem einhverra hluta vegna fær nú litla athygli og er lítið rædd, þá getur þetta verið niðurstaðan.

Ef við ætlum að hjálpa fólki þá er mun betra, virðulegi forseti, að hjálpa því að greiða niður skuldir sína en að framlengja í þeim. Svo mikið er víst. Út frá því er þetta mun betri aðferð til að hjálpa fólkinu í landinu en það kerfi sem við höfum haft fram til þessa.

Vaxtabæturnar hafa verið af svipaðri upphæð og sú sem hér um ræðir, en einhverra hluta vegna eru þær aldrei ræddar (Forseti hringir.) eða kerfið sem hefur verið komið upp og hefur svo sannarlega sýnt að hefur ekki gengið vel.