144. löggjafarþing — 3. fundur,  11. sept. 2014.

fjárlög 2015.

1. mál
[14:35]
Horfa

Ólína Þorvarðardóttir (Sf):

Herra forseti. Þegar ég hafði lesið það fjárlagafrumvarp sem nú liggur fyrir Alþingi og fór að átta mig á raunverulegu inntaki þess komu mér í hug orðin í Gestaþætti Hávamála:

Lítilla sanda, lítilla sæva

— lítil eru geð guma

Ríkisstjórnin hefur sannarlega kastað sauðargærunni í þessu frumvarpi, sauðargærunni sem hæstv. forsætisráðherra umvafði sig með í stefnuræðu sinni hér í gærkvöldi. Sú ræða var gæran en úlfurinn sjálfur, sem gægist fram undan sauðargærunni, birtist okkur í blaðsíðunum í þessu fjárlagafrumvarpi. Og nú sjáum við svo ekki verður um villst ríkisstjórn ríka fólksins að verki. Það er dáðlítil ríkisstjórn, hverrar forsvarsmenn tala með krít á tungu hér í ræðustóli Alþingis en reiða samtímis til höggs með höndinni sem heldur um stjórnartauma, höndinni sem heldur um ríkiskassann.

Á Íslandi eiga fjölskyldurnar að ná endum saman um mánaðamót. Öryrkjar eiga að geta lifað mannsæmandi lífi og eldri borgarar eiga að fá notið afraksturs ævistarfsins, sagði hæstv. forsætisráðherra í stefnuræðu sinni í gær. Í dag boðar fjármálaráðherra 11 milljarða kr. hækkun á matvöru og lífsnauðsynjum í einni aðgerð og kallar það skattalækkun. Hann boðar 5% hækkun á rafmagni, mat og heitu vatni sem leggst þungt á tekjulága og barnafjölskyldur um allt land. Hann boðar hækkun á raforku til húshitunar, sem auk annars mun íþyngja mjög íbúum á köldum svæðum og þeim svæðum landsins sem skilgreind hafa verið sem svæði í vörn þar sem fólk líður nú þegar fyrir háan húshitunarkostnað, hátt vöruverð og flutningskostnað.

Fjárlagafrumvarpið er herferð gegn tekjulágum og atvinnulausum, segir formaður Starfsgreinasambands Íslands. Það kemur eins og skrattinn inn í umræðu um kjarasamninga, segir formaður Eflingar og boðar átök á vinnumarkaði í framhaldinu. Það þarf ekki að leita svo langt sem út til aðila vinnumarkaðarins eða til stjórnarandstöðunnar því að stjórnarþingmönnum sjálfum blöskrar áform þeirra eigin ríkisstjórnar svo mjög að þeir fá ekki orða bundist. Eða svo ég vitni orðrétt í hv. þm. Karl Garðarsson sem situr hér í salnum og segir í fréttum í gær, með leyfi forseta:

„Eftir standa fátækir, barnlausir einstaklingar, eldri borgarar og öryrkjar […] sem þurfa að borga hærra verð fyrir nauðsynjavörur.“

Að sjálfsögðu tek ég heils hugar undir þessi orð og það gerir allt vel hugsandi fólk sem hefur kynnt sér boðskap fjárlagafrumvarpsins. Fleiri stjórnarþingmenn hafa tekið í sama streng og þess vegna verður fróðlegt að sjá hver afdrif þessa frumvarps verða í þinginu að þessu sinni. Það er ekki úr vegi að bera þessi ummæli og ummæli af þessu tagi saman við krítartungutal forsætisráðherrans í gær þegar hann talaði um jafnan aðgang að heilbrigðisþjónustu og félagslegri aðstoð, möguleika til menntunar og atvinnu og trú á framtíð landsins — falleg orð en algjörlega merkingarlaus.

Við lesum í fjárlagafrumvarpinu áform um að stytta bótatímabil atvinnuleysisbóta úr þremur árum í tvö og hálft. Félagsmálaráðherra sagði í fréttum í gær að þetta stafaði af því að atvinnuástand hefði batnað í landinu, eins og það breyti einhverju fyrir það fólk sem þarf að sækja atvinnuleysisbætur, eins og atvinnulaust fólk hverfi við það að falla út af bótaskrá. Það hverfur kannski út af skráningunni, út úr tölfræðinni og kannski er það einmitt markmiðið með þessari breytingu að geta fækkað þeim sem eru á atvinnuleysisskrá til að fegra myndina. Það kæmi nú ekki á óvart. En fólkið á bak við tölurnar hverfur ekki. Við erum hér að tala um lifandi fólk sem verður til áfram og vandi þess sömuleiðis meðan það hefur ekki atvinnu. Ríkisstjórnin getur þurrkað þetta fólk út af skrám eins og þegar strúturinn stingur höfði í sandinn, en ríkisstjórnin leysir ekki vanda fólksins með því og hún leysir engan vanda með því að velta honum annað, t.d. yfir á sveitarfélögin sem eru nú ekki ýkja burðug mörg hver til þess að takast á við þessa viðbót þegar atvinnulaust fólk fer að segja sig til sveitar við það að falla af bótum. Það verða ekki síst sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu og Suðurnesjum sem þurfa að bera þann þunga þegar til kemur því að það er löngu þekkt að atvinnulaust fólk af landsbyggðinni flytur sig til höfuðborgarinnar þegar atvinnan bregst og þess vegna er ekki alveg að marka atvinnuleysistölur úti á landi.

Síðast en ekki síst vil ég nefna þær köldu kveðjur sem þetta frumvarp sendir þeim byggðum landsins sem eiga mest undir högg að sækja í samfélagi okkar vegna skorts á raforkuöryggi, skorts á góðum fjarskiptum á borð við símasamband og internet og vegna skorts á góðum samgöngum, en þetta þrennt, samgöngur, raforkuöryggi og fjarskipti eru undirstaða þess að atvinnulíf fái þrifist og byggð viðhaldist í landinu.

Ríkisstjórnin hefur fellt niður 50 millj. kr. framlag vegna sértækra aðgerða á varnarsvæðum sem snúa að brothættum byggðarlögum í tengslum við framkvæmd byggðaáætlunar. Ekki nóg með það, ríkisstjórnin hefur kippt fótum undan sóknaráætlunum landshlutanna. Það gerðist í fyrra þegar 400 millj. kr. fjárveiting var tekin af og einungis fjórðungur fjármagns settur inn aftur. Í þessu frumvarpi verður ekki annað séð en að sóknaráætlanir landshlutanna hafi endanlega fengið náðarhöggið. Allri þeirri miklu og góðu vinnu sem á síðustu árum hefur farið í að gera þessar áætlanir í nánu og góðu samráði aðila á milli til þess að snúa vörn í sókn hefur nú verið kastað fyrir róða.

Höggvið er að brýnum samgönguframkvæmdum. Fyrirhuguð 3 milljarða kr. hækkun til vegaframkvæmda er að engu gerð og settar inn litlar 850 milljónir í staðinn, sem duga ekki einu sinni fyrir nauðsynlegasta viðhaldi vega, hvað þá nýframkvæmdum. Á sama tíma megum við horfa upp á það að milljörðum sé aflétt af útgerðarauðvaldinu sem ríkisstjórn hinna ríku veigrar sér við að láta standa skil á sínum skerfi af nýtingu þjóðarauðlindar sem skapað hefur tugmilljarða gróða í þeirri grein.

Á meðan ríkisstjórn hinna ríku hlífir útgerðarauðvaldinu veigrar hún sér ekki við að leggja 11 milljarða kr. hækkun á lífsnauðsynjar almennings í landinu. Nei, herra forseti, það er lítil reisn yfir þessu fjárlagafrumvarpi.

Lítilla sanda, lítilla sæva

— lítil eru geð guma.