144. löggjafarþing — 3. fundur,  11. sept. 2014.

fjárlög 2015.

1. mál
[14:43]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Frú forseti. Af því ég náði ekki að fara í andsvar við hv. þm. Guðlaug Þór Þórðarson ætla ég að leyfa mér að nota nokkrar sekúndur í það í upphafi þessarar ræðu.

Hv. þingmaður fór hér mikinn með stórbrotnar formúleringar eins og honum er gjarnan lagið. Það var reyndar athyglisvert, og er, í fleiri tilvikum að hlusta á menn ræða um aðstæður í ríkisfjármálum á síðasta kjörtímabili ótengt við þann veruleika sem við var að glíma, hvort sem það eru framlög til heilbrigðismála eða annarra þátta. Fór það algerlega fram hjá þingmönnum Sjálfstæðisflokksins, hæstv. fjármálaráðherra eða hv. þm. Guðlaugi Þór Þórðarsyni, að aðstæðurnar voru þannig 2009 að ríkissjóður Íslands stefndi lóðbeint, hratt og örugglega á hausinn og hefði einfaldlega farið það á fáeinum árum ef ekki hefði verið hafist handa við að takast á við þann gríðarlega vanda og þá vá sem að steðjaði með halla á ríkissjóði þegar verst lét á bilinu 10–15% af vergri landsframleiðslu? 217 milljarða hallinn sem bókaður var á ríkissjóð 2008 verður vonandi alltaf Íslandsmet í sögunni og það þarf ekki að deila um hverjir eiga það Íslandsmet. Það var Sjálfstæðisflokkurinn sem skildi þannig við ríkisfjármálin. Þetta eru hátt í 300 milljarðar á núgildandi verðlagi. Hallinn stefndi framan af ári 2009 í um 170–190 milljarða.

Ef ekki hefði verið gripið til viðamikilla aðgerða strax á miðju ári 2009, bæði með tekjuöflun og verulegum niðurskurði, hefði hallinn orðið af þeirri stærðargráðu. Hann náðist niður í 140 milljarða, tæp 10% af vergri landsframleiðslu, en hann var samt þar, 160–170 milljarðar á núgildandi verðlagi, tæp 10% af vergri landsframleiðslu. Svo geta menn talað eins og hv. þm. Guðlaugur Þór Þórðarson um að úr því við gerðum ekki allt sem okkur langaði til, byggðum nýjan Landspítala eða eitthvað annað, þá þýði lítið fyrir okkur að vera að tala núna. En sjá menn ekki hvert verkefnið var, við hvað var að glíma? Það er svo ódýrt að heyra menn tala svona, horfandi fram hjá þessum staðreyndum, að það hálfa væri nóg.

Einni fullyrðingu hv. þm. Guðlaugs Þórs Þórðarsonar er óhjákvæmilegt að mótmæla vegna þess að hv. þingmaður býr sér nefnilega til fullyrðingar og étur þær svo aftur og aftur upp eftir sjálfum sér eins og heilagan sannleik. Það er lítið annað að gera við slíkar aðstæður en að koma hinu rétta á framfæri.

Hv. þm. Guðlaugur Þór Þórðarson leyfði sér hér að halda því fram að fyrrverandi ríkisstjórn hefði ekki forgangsraðað í þágu heilbrigðismála. Það gerði sú ríkisstjórn í hvert einasta sinn sem hún greip til aðgerða og afgreiddi fjárlög. Í öllum umferðunum, á miðju ári 2009, í fjárlögum 2010, í fjárlögum 2011 og í fjárlögum 2012, var minnst aðhaldskrafa lögð á heilbrigðismál. Það var farið mýkri höndum um þann málaflokk en nokkurn annan málaflokk. Þar á eftir menntun, löggæsla og annað slíkt. Það var skorið tvöfalt til þrefalt meira niður á öðrum sviðum. Það er að forgangsraða. Það er líka að hlífa þessum málaflokki, hv. þingmaður.

Í fjárlögunum 2013 var engin aðhaldskrafa lögð á heilbrigðismálin. Þá töldum við og vissum reyndar að meira en nógu langt var gengið og menn gerðu meira en gott þótti vegna þess að verkefnið var að forða ríkissjóði frá gjaldþroti. Þá var sem sagt heilbrigðismálunum alveg hlíft við frekara aðhaldi og fyrstu nýju peningarnir settir inn, þannig að við höfðum þegar hafist handa við að bæta fjármunum inn í heilbrigðiskerfið. Og umtalsverðar fjárhæðir, um 800 milljónir samtals ef ég man rétt, voru settar í tækjakaup á Landspítalanum og talsverð fjárhæð í tækjakaup á sjúkrahúsinu á Akureyri. Það var búið að forgangsraða í þágu þessa málaflokks allan tímann og við höfðum hafið uppbygginguna.

Ég ætlaði aðeins að glíma við í örfáar mínútur stóru myndina í þessum málum og ræði meira út frá fyrra heftinu en fjárlagafrumvarpinu sjálfu.

Hallalaus fjárlög annað árið í röð, hef ég heyrt hæstv. fjármálaráðherra segja nokkrum sinnum og vera stoltan af. Það er gott og gleðilegt. Má óska hæstv. fjármálaráðherra til hamingju með það. Vandinn er sá að þetta er ekki alveg rétt sagnfræði vegna þess í reynd voru nokkurn veginn hallalaus fjárlög og nokkurn veginn hallalaust frumvarp lagt fram strax haustið 2012 með mjög óverulegum halla á ríkissjóði. Og það gekk upp, segir ríkisreikningur núna á árinu 2014. Þegar upp er staðið varð afkoma ríkisins nokkurn veginn í járnum á árinu 2013 og þar með nokkurn veginn í samræmi við frumvarpið sem lagt var fram haustið 2012. Þannig að þetta er í raun og veru þriðja fjárlagafrumvarpið og þá þriðju fjárlögin sem við erum að ræða þar sem afkoma ríkissjóðs er nokkurn veginn komin í núllið, plús/mínus eitthvað svolítið.

Ég tel hins vegar áhyggjuefni að afkoman næstu tvö ár, 2015 og 2016, er lítt breytt. Það er nokkurn veginn aftur í járnum, 0,2% af fjárlögum miðað við verga landsframleiðslu 2015 og 0,3% 2016. Það er líka staðreynd að nafnvirði skulda ríkissjóðs mun í raun og veru ekkert lækka, sáralítið. Það er eingöngu skuldahlutfallið sem lækkar vegna þess að landsframleiðslan vex. Við verðum að horfast í augu við þær staðreyndir eins og þær blasa við okkur. Við náum ekki miklum árangri þarna.

Fjárlagafrumvarp er á margan hátt pólitískasta mál hvers þings. Þetta fjárlagafrumvarp er rammpólitískt og ríkisfjármálaáætlunin sem því fylgir. Það er fullkomlega réttmætt að ræða þá staðreynd að að óbreyttri siglingu rýrnar hlutur samneyslunnar, velferðarútgjaldanna, jafnt og þétt næstu fjögur ár og verður orðið alveg ískyggilega lágur. Það er pólitík. Það er sko heldur betur pólitík. Það er verið að segja: Við ætlum þessum geira ekki að fá sína hlutdeild í vaxandi þjóðartekjum. Það er ósköp einfaldlega það sem er verið að segja. Hlutaskiptunum á að breyta í íslensku samfélagi. Það er eins og að segja við sjómenn: Já, við höfum verið hérna um áratugi með hlutaskiptakerfi. Það hefur gengið á ýmsu í samskiptum útgerðar og sjómanna og ekki alltaf verið létt að ná samningum. En einu hafa menn þó ekki hróflað við, það er hlutaskiptakerfið sem er þannig í grófum dráttum, til einföldunar, að sjómennirnir fá 40% af aflaverðmætinu í hverri veiðiferð í kaup. Það gengur stundum vel og þá fá þeir mikið, það gengur stundum verr og þá fá þeir minna, en hlutaskiptunum er ekki breytt. En hæstv. fjármálaráðherra er að segja við íslenskt samfélag: Við ætlum að breyta hlutaskiptunum. Þið skuluð ekki fá 40% ykkar. Nei, þau eiga að lækka niður í 36% á næstu fjórum árum. Það er í raun og veru það sem er verið að segja. Ég sé engin rök standa til þess að það sem er fram undan í íslensku samfélagi réttlæti þetta.

Hv. þm. Guðlaugur Þór Þórðarson hefur nýlega uppgötvað að þjóðin eldist og er mjög upptekinn af þeirri uppgötvun sinni. Það er alveg rétt. Við sum höfum áttað okkur á þessu fyrir þó nokkru síðan. En á hvað er þetta ávísun? Jú, og þar erum við sjálfsagt sammála, óumflýjanleg útgjöld. Það þarf fleiri hjúkrunarrými. Það þarf meiri umönnun. Það þarf meiri kostnað í heilbrigðiskerfinu og við þurfum að undirbúa okkur undir þann veruleika. Þar erum við sammála. En sér þess stað hér? Nei, ég sé það ekki sérstaklega.

Ég verð líka að segja þegar menn tala um tekjuöflunaraðgerðir og skatta á síðasta kjörtímabili eins og menn gera stundum hér verð ég svolítið dapur. Er það sanngjörn uppstilling mála að líta svo á að allt það sem við þurftum að gera í tekjuöflun hafi verið af einhverri meinbægni og vinstrimennsku án nokkurs tilefnis? Menn horfa fram hjá þeim staðreyndum sem við blasa, það sem við var að glíma, að ná niður hundruð milljarða halla á ríkissjóð. Halda menn að það hafi gerst fyrirhafnarlaust? Halda menn að grunnurinn hefði orðið til fyrir hæstv. fjármálaráðherra núna að leggja aftur og aftur fram hallalaus fjárlög ef ekki hefði verið með stórfelldum erfiðum aðgerðum sem oft voru við það að ganga af okkur dauðum, ráðist í það að bæði afla tekna, sem hefur gengið vel og hefur skilað sér vel að merkja, hæstv. fjármálaráðherra, það er rangt sem kemur fram í bókinni að þær hafi ekki gert það, og auðvitað líka að draga úr útgjöldum alls staðar þar sem þess var nokkur kostur.

Klisjan um þetta, að munurinn núna sé sá að ríkisstjórnin ætli að skilja meira eftir hjá heimilunum með því að færa fjármuni út úr samneyslunni og yfir til heimilanna í meiri ráðstöfunartekjur. En bíddu, þurfa ekki heimilin áfram á heimilisþjónustu og skólum og lyfjum að halda? Þetta er spurning um fyrirkomulag. Hver segir að það sé betra samfélag að minna sé lagt af mörkum í gegnum samneysluna þar sem allir hafa jafnan rétt og fá þjónustuna án endurgjalds, án tillits til efnahags eða fara hina leiðina? Það er nefnilega klisja, hæstv. fjármálaráðherra, og ekkert annað en hægri klisja, útslitin, að þetta þýði sjálfkrafa betri afkomu heimilanna í landinu. Hvaða heimila? Auðvitað græða viss heimili á því að auðlegðarskattur er lagður niður, en ekki þau öll. (Forseti hringir.) Það eru um 3.500 ríkustu heimilin í landinu sem græða á því á kostnað hinna, því að þörfin fyrir þjónustu og útgjöld í velferðarmál minnkar ekki þótt 10 milljarðar hverfi í tekjum frá ríkinu.