144. löggjafarþing — 3. fundur,  11. sept. 2014.

fjárlög 2015.

1. mál
[14:54]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Frú forseti. Það er engin klisja að skilja eftir fjármuni hjá heimilunum. Það er engin klisja í því að lækka hreinlega skatta, hvort sem er tekjuskatt eða neysluskatta, eins og við gerum samhliða þessu fjárlagafrumvarpi. Að afnema vörugjöld — vörugjöld leggjast á öll heimili. Í niðurfellingu vörugjalda felst til dæmis lækkun byggingarkostnaðar. Það er sama hvort verið er að reisa fjölbýlishús, raðhús eða einbýlishús, byggingarkostnaður lækkar um á bilinu 1,1–1,2% samkvæmt útreikningum okkar. Alveg skýrt dæmi. Heimilistæki, sem eru á hverju einasta heimili, munu líka lækka mikið í verði. Þetta er einfaldlega áherslumunur.

Ég vil aðeins koma inn á orð hv. þingmanns vegna uppgjörs ársins 2013. Við fórum í aðgerðir hér í fjáraukalagafrumvarpi síðastliðið haust til að draga úr útgjaldahorfum vegna ársins. Við gerðum það. Að öðru leyti skýrist munurinn á því sem við sáum fyrir undir lok árs og því sem nú hefur raungerst í ríkisreikningi fyrir 2013 að langmestu leyti af hlutabréfinu í Landsbankanum. En við eigum að fagna því öll saman að afkoman varð betri fyrir 2013 en við óttuðumst. Niðurstaðan er fagnaðarefni þó að ekki sé hægt að halda því fram að það hafi með öllu verið hallalaust ár.

Varðandi hlutdeild frumgjaldanna í landsframleiðslunni eða samneyslunnar af landsframleiðslunni er bara ágætt að vísa til fjögurra ára áætlunar sem var lögð fram haustið 2012 fyrir síðasta ár. Samkvæmt henni áttu frumgjöldin að fara niður í 24% af landsframleiðslu fyrir árið 2016. Það er 0,3% lægra en við gerum ráð fyrir að verði á því sama ári. Þannig að það er engin grundvallarbreyting (Forseti hringir.) sem er að verða í þeirri langtímaáætlun sem við ræðum hér. En þetta er á niðurleið, meðal annars vegna þess að framlög til lækkunar á verðtryggðum lánum munu hverfa út.