144. löggjafarþing — 3. fundur,  11. sept. 2014.

fjárlög 2015.

1. mál
[14:58]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Frú forseti. Það felst ákveðinn grundvallarmisskilningur í þessu vegna þess að með auknu framtaki og aukinni athafnasemi í þjóðfélaginu munu skattstofnar ríkisins taka við sér og verða sterkari og öflugri. Hóflegir skattar eru líklegastir til þess að vera grundvöllur öflugra tekjuöflunarkerfis fyrir ríkið.

Ég vek athygli hv. þingmanns á bls. 69 í þessu sama hefti sem hann vísar til, Stefna og horfur, fyrri hluti fjárlagafrumvarpsins, fyrra heftið. Þar er ágætt yfirlit yfir það hvernig skattbreytingarnar hafa komið út. Eins og þar má sjá eru skattbreytingarnar sem ný ríkisstjórn leiddi fram í fyrra og á þessu ári að skila ríkinu auknum tekjum. Hvers vegna? Fyrst og fremst vegna þess að slitabúin eru að greiða og hafa tapað sínum undanþágum. Fjármálafyrirtækin greiða meira. En þegar við höfum horft fram hjá bankaskattinum erum við með skattalækkun. Það er það sem við erum að gera fyrir almenning og fyrirtækin í landinu, við erum að létta byrðum af heimilunum og fyrirtækjunum. Jafnvel þótt ríkið fái meiri tekjur út úr breytingunum þegar heilt er á litið.

Þetta er sá viðsnúningur sem er að verða. Þessi breyting var grundvöllur þess að við gátum lagt fram hallalaust fjárlagafrumvarp fyrir yfirstandandi ár sem reyndar mun enda með ágætisafgangi og er grundvöllurinn sem við viljum byggja á til framtíðar.

Reyndar hefur hér í dag verið afskaplega lítið rætt um mjög stórar aðgerðir sem við vitum að eru í undirbúningi og geta breytt þessari mynd allri saman mjög verulega. Það eru aðgerðir til að afnema höft, það hvernig við náum að tryggja umtalsverða afskrift krafna sem standa á gömlu slitabúin sem ekki er fyrirséð að geti gengið til kröfuhafa. Hagfelld niðurstaða í þeirri stóru mynd mundi gerbreyta allri umræðu um skuldastöðu ríkisins og opinber fjármál inn í næstu ár.