144. löggjafarþing — 3. fundur,  11. sept. 2014.

fjárlög 2015.

1. mál
[15:03]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. þingmaður talaði um það að ríkustu fjölskyldurnar í landinu hafi borgað auðlegðarskattinn. Hv. þingmaður upplýsir okkur kannski af hverju ákveðnum ríkum fjölskyldum var sleppt við auðlegðarskatt. Það eru eignir sem eru ríkistryggðar, 100% eignir. Menn geta átt húseignir sem falla í verði og eitthvað sem margir hafa gert sem hafa ekki átt í lífeyrissjóði. En síðasta ríkisstjórn sleppti ríku fólki, ekki mörgu, sem átti lífeyrisréttindi, ríkistryggð lífeyrisréttindi. Því var sleppt. Allir aðrir skyldu greiða skattinn. Margt af því fólki sem greiddi þennan skatt var með litlar tekjur og gat ekki verið í lífeyrissjóði, en það var ákveðin elíta sem fékk að sleppa að greiða skattinn.

Það er gott að heyra að menn viti og hv. þingmaður viti um breytta aldurssamsetningu þjóðarinnar því að á síðasta kjörtímabili var ekki hægt að greina það að menn væru meðvitaðir um það. Þannig var hjúkrunarrýmum fækkað þar sem mest var þörfin. Það kemur illa niður á Landspítalanum, það eykur rekstrarkostnað hans vegna þess að þá þarf að vera með fólk inni á spítalanum sem á í rauninni að vera annars staðar í ódýrari úrræðum.

Hv. þingmanni verður tíðrætt um að það hafi verið forgangsraðað í þágu heilbrigðisþjónustunnar. En það var farið í ný verkefni. ESB-umsóknin gerði það að verkum væntanlega, það er nú erfitt að finna tölurnar, að ýmis verkefni utanríkisráðuneytisins hækkuðu um 287%, Þýðingamiðstöð utanríkisráðuneytisins um 72%. Við getum nefnt stjórnlagaþingið, menn tala um að þegar atkvæðagreiðslan er tekin með og allt saman séum við komin þar í jafnvel 1 og hálfan milljarð. Rannsóknarnefndir Alþingis. Við þekkjum það mál. Ekki var nú eftirlitið þar.

Virðulegi forseti. Það hefði verið í lagi að nota þessa fjármuni í tæki á Landspítalanum. Ef menn hefðu virkilega viljað forgangsraða í þágu heilbrigðisþjónustunnar hefðu menn gert það. Tölurnar tala sínu máli. Aukningin var (Forseti hringir.) á öðrum stöðum. Ég fer betur í það á eftir.