144. löggjafarþing — 3. fundur,  11. sept. 2014.

fjárlög 2015.

1. mál
[15:05]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Mælingar sýna það og t.d. sést það á töflum OECD að útgjöld til velferðarmála á Íslandi fóru vaxandi á hverju einasta ári eftir hrun sem hlutfall af landsframleiðslu. Þar ber að vísu að hafa í huga að þar með flokkast útgjöld til greiðslu atvinnuleysisbóta, en jafnvel að því frátöldu jókst hlutdeild heilbrigðismála, menntamála, almannatrygginga og sjúkratrygginga sem hlutfall af vergri landsframleiðslu á hverju einasta ári. Það segir sína sögu um þá skýru forgangsröðun sem var í þágu þessara málaflokka. Vissulega verður að hafa í huga að á þessum tíma var verið að draga mjög hratt og mikið úr ríkisútgjöldum til annarra málaflokka.

Varðandi breytta aldurssamsetningu og að þess hafi ekki séð stað að við höfum áttað okkur á því síðasta kjörtímabili. Hv. þingmaður var svo óskammfeilinn að tala um hjúkrunarrými í því sambandi. Var ekki einmitt stærsta átaki, sennilega sögunnar, í byggingu hjúkrunarheimila hrint af stað? Það var auðvitað öðrum þræði atvinnupólitískt mál því það kom sér vel að skapa störf í byggingariðnaði með byggingu tíu eða tólf nýrra hjúkrunarheimila á jafn mörgum stöðum á landinu sem flest eru núna að komast í gagnið. Eitt það síðasta var tekið í notkun á Suðurnesjum síðastliðið vor. Þetta hefur farið fram hjá hv. þingmanni. Það var skýr forgangsröðun. Þar var þörfin til staðar, hafði verið lengi vitað, og ráðist var í það verkefni. Það var vissulega gert með svokallaðri leiguleið, þannig að það mun taka af tekjum Framkvæmdasjóðs aldraðra á komandi árum. En það var gert með hliðsjón af aðstæðum eins og þær voru. Ég vona að hv. þingmaður styðji það. Stórátak í að útrýma fjölbýlum og koma upp nútímalegum hjúkrunarheimilum á þeim tíu, tólf stöðum á landinu þar sem þörfin var talin brýnust. Hv. þingmaður hlýtur að geta viðurkennt það sem a.m.k. einhvers konar forgangsröðun.