144. löggjafarþing — 3. fundur,  11. sept. 2014.

fjárlög 2015.

1. mál
[15:12]
Horfa

Karl Garðarsson (F):

Virðulegur forseti. Það hefur margt jákvætt gerst í þjóðfélaginu síðan ríkisstjórnin tók við. Við horfum upp á hagvöxt sem fáar Evrópuþjóðir geta státað af um þessar mundir. Hann verður væntanlega um 3% árið 2014 og samkvæmt Seðlabankanum er spáð allt að 4% hagvexti á næsta ári. Þetta eru vissulega tölur sem flestar Evrópuþjóðir geta öfundað okkur af.

Við erum með lága verðbólgu, sem hefur ekki sést lengi, og vel að merkja, hún er undir verðbólgumarkmiði Seðlabankans sjöunda mánuðinn í röð. Hagstofan spáir að verðbólga verði að meðaltali um 3% fram til 2018 — fram til 2018. Þetta eru mikilvægar tölur því að loksins virðist vera að nást stöðugleiki sem er mikilvægur fyrir skuldsett heimili landsins. Auðvitað viljum við sjá verðbólgu vel undir 3% en stöðugleiki er það sem við þurfum, ekki óvissa og hræðsla hver mánaðamót þegar gluggaumslagið er opnað og fólk fer að skoða hvað lánin hafa hækkað mikið.

Atvinnuleysi er með því lægsta sem gerist í Evrópu, það er staðreynd. Spáð er að það verði um 3,5% á næsta ári og haldist nokkurn veginn í þeirri tölu fram til 2018. Forsendur kjarasamninga frá síðasta vetri hafa staðist er varðar kaupmátt.

Auðvitað er 4 milljarða kr. afgangur á fjárlögum ekki mikið þegar horft er til þess að tekjur ríkisins nema um 644 milljörðum kr. á næsta ári. Það er samt mikilvægt skref í rétta átt og nú er komið að því að greiða niður skuldir ríkisins. Það gengur ekki að greiða árlega yfir 80 milljarða kr. í vexti, sem eru ígildi framlegðar ríkisins til Landspítala í tvö ár. Ríkið borgar 80 milljarða kr. í vexti á ári. Landspítalinn fær 45 milljarða. Þetta er það sem við stöndum frammi fyrir. Þessar háu vaxtagreiðslur þýða aðeins eitt, við verðum að sýna áfram aðhald í ríkisrekstri. Það þýðir ekki að verða við kröfum um aukin útgjöld í hvert skipti sem smáafgangur er á fjárlögum.

Okkur verður tíðrætt um skiptingu þeirra peninga sem við höfum milli handanna, í hvaða málaflokka þessir peningar fara. Heildarútgjöld ríkisins nema um 640 milljörðum kr. Af þessum peningum fara rúmir 140 milljarðar í heilbrigðismál og rúmir 120 milljarðar í almannatryggingar og velferðarmál. Þetta þýðir að tæpur þriðjungur útgjalda ríkisins fer í þessa málaflokka, heilbrigðismál, almannatryggingar og velferðarmál. Auðvitað viljum við hafa gott heilbrigðiskerfi og að almannatryggingar séu í lagi, að ekki sé talað um velferðarmálin. Það er orðið löngu tímabært að við tökum þessa umræðu. Hvað er hægt að réttlæta að hátt hlutfall af ráðstöfunartekjum ríkisins fari í þessa málaflokka?

Fram undan eru miklar breytingar á heilbrigðiskerfinu, ekki bara vegna aukins lyfjakostnaðar eða vegna kröfunnar um að sífellt sé verið að kaupa ný tæki og tól heldur vegna þess að aldurssamsetning þjóðarinnar er að breytast. Þannig er gert ráð fyrir að fjöldi þeirra sem eru 67 ára eða eldri aukist um rúmlega 26 þúsund á næstu 15 árum, eða um 71% frá því sem er í dag. Talið er að fjöldi þeirra sem eru 80 ára og eldri aukist um tæplega 6.600 eða um 55%. Þessar miklu breytingar kalla á aðrar og ólíkar áherslur í heilbrigðismálum þar sem hugsa þarf fyrir þörfum þessa vaxandi hóps. Þessar breytingar kalla líka á aukin útgjöld. Ljóst er að fjölga þarf hjúkrunarrýmum fyrir aldraða um allt að 1.700 á næstu 15 árum. Nemur kostnaður vegna þessa um 54 milljörðum kr. Af þessum fjölda nýrra hjúkrunarrýma eru um 1.100 á höfuðborgarsvæðinu.

Í fjárlagafrumvarpi næsta árs er gert ráð fyrir auknum framlögum til heilbrigðisstofnana um land allt og er það vel. Framlög til öldrunarheimila hækka líka enda er nauðsynlegt að setja aukið fjármagn í þann málaflokk eins og fram kom í máli mínu áðan. Það er sérstaklega ánægjulegt að sjá að framlög til Landspítala skuli aukast um 2 milljarða kr. Niðurskurðartímabili Landspítala er lokið, það var staðfest í fjárlögum þessa árs og nú þurfum við að móta stefnu til framtíðar. Það er ömurlegt að sjá í sjónvarpi myndir af lekum byggingum spítalans. Við höfum þurft að sjá eftir hæfu starfsfólki til útlanda og við höfum þurft að draga úr þjónustu. Það er kominn tími til að breyta um stefnu og við sjáum þess merki í fjárlagafrumvarpinu.

Það er sérstaklega ánægjulegt að sjá aukin framlög til Tækniþróunarsjóðs. Hlutverk sjóðsins er að styrkja þróunarstarf og rannsóknir á sviði tækniþróunar sem miða að nýsköpun í íslensku atvinnulífi og nú á að auka framlög til hans um rúmar 400 millj. kr. Þetta er í samræmi stefnu Vísinda- og tækniráðs og er afar mikilvægt, ekki síst vegna þess að framlag til nýsköpunarfyrirtækja mun líka hækka. Þetta mun skila sér í sterkara atvinnulífi til framtíðar.

Þrátt fyrir að fjárlagafrumvarpið sé jákvætt á flestan hátt er það ekki óumdeilt frekar en fyrri daginn. Eitt vil ég nefna sérstaklega sem er gagnrýnivert í útgjaldahluta fjárlagafurmvarpsins en það eru framlög til skattrannsóknarstjóra, að þau skuli lækka um 40 millj. kr. á milli ára. Farið var í átaksverkefni hjá skattrannsóknarstjóra fyrir nokkrum árum og nú liggur fyrir að þeir peningar sem fóru í það verkefni hafa skilað sér margfalt til baka. Það liggur fyrir að skatteftirlit eykur tekjur ríkisins og því hefði þurft að bæta í þennan málaflokk, ekki draga úr.

Nú er ég almennt sammála þeim sem hafa tjáð sig um eftirlitsstofnanir og nauðsyn þess að koma í veg fyrir að þær bólgni sífellt út. Þar er þó skattrannsóknarstjóri undanþeginn í mínum bókum. Þar á að auka fjármagn á meðan sýnt er að það skilar sér margfalt til baka. Það þarf líka að styðja við þá starfsemi Tryggingastofnunar sem miðar að því að uppræta bótasvik. Þar eru miklar fjárhæðir undir. Það sama gildir um Vinnumálastofnun og þá viðleitni þeirrar stofnunar að efla eftirlit sitt. Hér verðum við að bæta í. Ríkissjóður fær það margfalt til baka.

Það er ljóst að fjárlagafrumvarp næsta árs lýsir ábyrgri efnahagsstjórn. Eins og fram kom í upphafi máls míns gerði þjóðhagsspá ráð fyrir að hagvöxtur yrði viðvarandi og heldur meiri en í helstu samanburðarríkjum. Athygli vekur að samkvæmt spánni verður þessi hagvöxtur aðallega knúinn áfram af aukinni einkaneyslu og fjárfestingum, sem er breyting frá árinu 2013 þegar hann byggðist aðallega á útflutningi. Við megum ekki heldur gleyma því að á þessu ári er gert ráð fyrir að skuldir ríkissjóðs fari undir 80% af landsframleiðslu og á næstu árum er gert ráð fyrir að skuldahlutfallið batni enn frekar og verði nálægt 65% af landsframleiðslu árið 2016.

Stöðugleiki og hagvöxtur er það sem skiptir okkur mestu máli. Kaupmáttur hefur aukist og fram undan er breyting á uppbyggingu skattkerfisins þar sem einföldun er lykilorðið. Þar getum við deilt um leiðir, eins og varðandi hækkun á virðisaukaskatti á matvæli, en markmiðið er hins vegar skýrt, að einfalda skattkerfið, afnema vörugjöld og fækka undanþágum. Þetta eru atriði sem skipta miklu máli í þeim mikla frumskógi skatta og vörugjalda sem hafa verið við lýði. Fram undan eru ár uppbyggingar, fjárlagafrumvarp næsta árs er mikilvægt innlegg í þá baráttu. Fram undan eru skattalækkanir, afnám fjármagnshafta og lækkun höfuðstóls verðtryggðra lána. Þetta eru allt atriði sem munu bæta lífskjör okkar til framtíðar.