144. löggjafarþing — 3. fundur,  11. sept. 2014.

fjárlög 2015.

1. mál
[15:22]
Horfa

Kristján L. Möller (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Frekar finnst mér nú svarið loðið þegar komið er hér í ræðustól Alþingis. Haft er hátt á fésbók og úti í bæ og því spyr ég aftur og bið um afdráttarlaust svar miðað við það sem hér er sett fram.

Jú, við eigum eftir að ræða um breytingar á virðisaukakerfinu með öðru frumvarpi, en þetta er ein af meginforsendunum í frumvarpinu. Virðisaukaskattur gefur ríkissjóði hvorki meira né minna en 180 milljarða kr. á ári.

Sú breyting sem þarna er gerð, sem hér hefur verið sagt að sé mesta skattahækkun hin síðari ár, þar sem ráðist er á matarskattinn, á að hækka hann eins og raun ber vitni — mér hefur þótt það mjög merkilegt sem hv. þingmaður hefur sagt úti í bæ. Ég skora á hann að lýsa þessari skoðun sinni hér úr ræðustól Alþingis og festa það þar með inn í þingtíðindi, það sem hann hefur sagt úti í bæ.

Ef hv. þingmaður stendur við orð sín, (Forseti hringir.) og við höfum heyrt frá hv. þm. Vigdísi Hauksdóttur líka, þá gerist nefnilega eitt, að ekki er meiri hluti í fjárlaganefnd fyrir þessum tillögum.