144. löggjafarþing — 3. fundur,  11. sept. 2014.

fjárlög 2015.

1. mál
[15:27]
Horfa

Karl Garðarsson (F) (andsvar):

Ég þakka hv. þm. Guðmundi Steingrímssyni fyrir þessa fyrirspurn. Aðeins varðandi matarskattinn eða réttara sagt virðisaukaskatt á matvæli eins og það heitir nú réttu nafni: Það liggur fyrir, en hefur kannski ekki komið mjög vel fram í umræðunni, að víða í nágrannalöndum okkar tíðkast það, og víðast held ég, að hafa matvæli í neðra þrepi. Og ég er þeirrar skoðunar að matvæli eigi að vera í lægra þrepi. Hvar það liggur nákvæmlega, hvort það á að vera í 7% eða 6% eða 8%, má endalaust ræða út af fyrir sig. En það þykir sjálfsagt í fjölmörgum löndum Evrópu, sem ég hef skoðað tölur frá, að hafa sérstakt þrep fyrir matvæli þar sem þetta er nauðsynjavara og ég sé ekki af hverju við getum ekki gert það líka.

Varðandi niðurskurðinn á Landspítalanum liggur það fyrir, og það er það sem ég er að benda á, að niðurskurði á framlögum til Landspítalans er lokið. Ég er ekki að segja að Landspítalinn fái allt það sem hann þarf, hann þarf mun meira, en niðurskurði á framlögum til Landspítalans er lokið. Það er staðreynd.