144. löggjafarþing — 3. fundur,  11. sept. 2014.

fjárlög 2015.

1. mál
[15:30]
Horfa

Karl Garðarsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni fyrir þetta. Ég er sammála honum í því að Landspítalinn þarf mun meira fjármagn, það liggur alveg fyrir og hefur legið fyrir lengi. Við þurfum að setja meiri peninga í þennan spítala, í ákveðnar deildir þessa spítala, í uppbyggingu, tæki, tól, húsnæði, það liggur allt saman fyrir.

Það sem ég er að benda á og það sem er mikilvægt er að við höfum fundið viðspyrnu hvað þetta varðar. Við erum farin að setja meiri peninga í þennan spítala en áður. En það er alveg rétt að Landspítalinn fær ekki alla þá peninga sem hann þarf. Það mun taka tíma og við þurfum að byggja upp þetta dæmi allt saman smám saman á næstu árum. Það er bara staðreynd.