144. löggjafarþing — 3. fundur,  11. sept. 2014.

fjárlög 2015.

1. mál
[15:31]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég veit það af löngu liðinni og næstum gleymdri reynslu að það er oft giska erfitt að vera nýr stjórnarþingmaður og þurfa að fylgja meiri hlutanum við erfiðar ákvarðanir. En mér fannst Karl Garðarsson brjótast með frísklegum hætti út úr gervi hv. þingmanns í ræðu sinni áðan. Hann kom hér og sagði hug sinn í tveimur efnum sem ég ætla að þakka honum fyrir.

Ég er í fyrsta lagi algjörlega sammála hv. þingmanni um að það er hættulegt að skera niður til skattrannsóknarstjóra. Hver einasta króna sem þangað er veitt skilar sér margfalt til baka og ég tek undir með því sem mér fannst vera hin undirliggjandi meining hans, að hugsanlega er ekki hægt að finna betri fjárfestingu fyrir krónur ríkisins en einmitt að senda þær þar inn. Hver króna skilar sér tífalt til baka. Ég þakka honum fyrir mál hans að þessu leyti og veit það að við í stjórnarandstöðunni munum finna þar dyggan stuðningsmann þegar við leggjum fram tillögu til þess að hækka þennan lið.

Hitt er síðan afstaða hans til matarskattsins. Ég minnist þess hér á dögum fyrri að þá hlustaði ég agndofa á góða framsóknarmenn halda skeleggar ræður gegn matarskattinum og enga betri þó en þá sem hraut af munni Páls frá Höllustöðum á þeim tíma. Það varð til þess að ég snerist algjörlega í lið með Framsóknarflokknum í því máli.

Ég er alveg sammála hv. þm. Karli Garðarssyni að það má sannarlega hreinsa til í skattkerfinu. Ég er sammála því sem stjórnarliðið ætlar að gera varðandi innflutningsgjöld ýmiss konar og ég er líka til í að hreina til í virðisaukaskattskerfinu, en ég dreg línuna við matarskattinn. Ég tel að það séu tvær óskyldar umræður þegar við ræðum annars vegar um að hækka virðisaukaskatt á matvælum sem beinlínis var lækkaður samkvæmt rökum Framsóknarflokksins og mínum á sínum tíma, en ég flutti tillöguna hér á sínum tíma, til þess að vernda fátækt fólk, þá sem hafa lítið úr að spila, og hins vegar aðrar breytingar. Við þurfum að greina á milli þessa tvenns. Ég spyr hv. þingmann: Mun hann ekki örugglega greiða atkvæði gegn þessu ef til stykkisins kemur?