144. löggjafarþing — 3. fundur,  11. sept. 2014.

fjárlög 2015.

1. mál
[15:34]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Kannski var þetta nóg svar fyrir mig, a.m.k. efast ég ekkert um að hv. þingmaður hefur mjög einlægan vilja og ég virði það við hann að hafa kjark til þess að stíga fram og segja hann. Það er ekkert mjög auðvelt fyrir þá sem eru að stíga kannski ekki alveg sín bláfyrstu spor, það er fjandanum erfiðara. Ég þekki þetta allt saman og veit þess vegna að þetta er ábyggilega ekki auðveld ganga. Hann hefur skjól og styrk t.d. af formanni þingflokks Framsóknarflokksins sem ég þekki að góðu einu frá samstarfi okkar í borgarstjórn Reykjavíkur. Sá ágæti þingmaður lætur ekki auðveldlega hringsnúa sér á plötunni svo að segja.

Hins vegar vil ég skora á hv. þingmann og formann þingflokks Framsóknarflokksins, vegna þess að öll þrjú eigum við það sameiginlegt að okkur þykir vænt um hæstv. forsætisráðherra Sigmund Davíð Gunnlaugsson. Ég held að hann sé að rata í miklar ógöngur ætli hann ekki láta af villu síns vegar. Læt ég það verða mín síðustu orð að skora á þessa tvo þingmenn um að sameinast mér um að bjarga hæstv. forsætisráðherra Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni frá þessum svakalega leiðangri sem hann með sorglegum hætti hefur einhvern veginn villst inn á.