144. löggjafarþing — 3. fundur,  11. sept. 2014.

fjárlög 2015.

1. mál
[15:36]
Horfa

Brynhildur Pétursdóttir (Bf):

Virðulegi forseti. Ég ætla að ræða aðeins meira um útgjaldahliðina en tekjuhliðina, einfaldlega vegna þess að mér hefur ekki gefist tími til að fara nógu vel yfir útgjöldin og við munum á morgun fá tækifæri til að ræða við ráðherrana og spyrja spurninga um ýmislegt sem er kannski ekki alveg skýrt.

Það hefur mikið verið talað um vörugjöldin og þessar virðisaukaskattsbreytingar. Hvað varðar vörugjöldin teljum við í Bjartri framtíð að það sé jákvætt skref að afnema vörugjöld en ég vil leggja áherslu á að það ætti þá líka að skoða tollaumhverfið. Það er alveg jafn ruglingslegur og stór pakki og vörugjöldin eru.

Virðisaukaskatturinn. Það er talað um að það sé verið að einfalda kerfið. Ég verð að taka undir það sem hefur komið fram hjá öðrum þingmönnum, ég sé ekki einföldunina í því að vera áfram með tvö eða í rauninni þrjú skattþrep en breyta prósentuhlutfallinu. Ég mundi vilja fá svör hjá hæstv. fjármálaráðherra um hver endapunkturinn sé. Er markmiðið að enda með eitt virðisaukaskattsþrep? Eða er markmiðið að vera áfram með þrjú þrep og svo ætlum við bara að hringla eitthvað með tölurnar svona eftir því hvaða stjórn tekur hér við völdum?

Mér finnst líka skammt gengið í undanþágum. Ég verð að segja að mér finnst skrýtið að sú undanþága sem snýr að samgöngum og í rauninni mest að ferðaþjónustu hafi yfirleitt verið til staðar, að hvalaskoðunarferðir og annað slíkt hafi verið undanskilið virðisaukaskatti. Mér finnst skammt gengið. Enn sjáum við ekki breytingar á einhverju eins og laxveiði, Bláa lóninu og sundstöðum sem eru meira fyrir ferðamenn og ætti að greiða virðisaukaskatt af því.

Svo veltir maður líka fyrir sér varðandi þessar aðgerðir hvort ekki væri einfaldara að vera ekkert að hækka neðra þrepið heldur lækka efra þrepið. Samkvæmt kenningum sjálfstæðismanna mundi lægri virðisaukaskattur í efra þrepinu, sem færi niður í 18% eða eitthvað, auka tekjur ríkisins. Það var alla vega málflutningurinn hérna þegar átti ekki að hækka virðisaukaskattinn á gistingu, þá var talað um að það væri gott að hafa lága skattprósentu vegna þess að það mundi auka tekjurnar, fleiri mundu koma. Gildir ekki það sama ef við lækkum virðisaukaskattinn niður í 18% eða 19%, það má finna einhverja tölu þar, og höfum lægra þrepið 7%? Eykur það ekki tekjur ríkisins vegna þess að það muni auka umsvif, auka neyslu? Ég bara spyr. Mér finnst þetta ekki vera — ja, næstum því varla fyrirhafnarinnar virði að fara í þessar breytingar. Mér finnst þetta svo óskýrt.

Svo varðandi neðra þrepið, við erum að tala um 7%, þá tek ég undir það sem hefur komið hérna fram. Ég er mótfallin því að virðisaukaskattur á mat hækki. Það er erfitt að skilgreina nauðsynjavörur yfir höfuð. Í dag eru til dæmis bleiur í 7% þrepinu, smokkar eru í 7%, en ekki hlaupaskór eða hjólahjálmar. Hvað eru góðar vörur og hvað eru vondar vörur og hvernig ætlum við að stýra þessu? Þetta er kannski umræða sem við ættum að taka og skilgreina miklu þrengra hvað eru nauðsynjavörur, hvað ætti að vera í lægra þrepinu. Ég sé ekkert endilega að erlend tímarit ættu að vera með 7% virðisaukaskatt en endurskinsmerki ekki, ef þið skiljið hvað ég á við.

Það er annað sem mig langar líka að ræða aðeins. Þegar efra þrepið verður lækkað þá velti ég fyrir mér: Mun það skila sér til neytenda? Það er oft þannig að þegar gjöld eru lækkuð þá taka seljendur mismuninn. Þegar matarskatturinn var lækkaður niður í 7% á sínum tíma var farið í alveg massíft átak til að fylgjast með verði. Það var ASÍ, það voru Neytendasamtökin, það var Neytendastofa, og ég held að það hafi skilað ágætum árangri. Það var mikið eftirlit, það voru settir peningar í það.

Ég heyrði hæstv. fjármálaráðherra segja að það yrði fylgst með því, þetta yrði tryggt, en hins vegar lækka fjárveitingar bæði til Neytendasamtakanna og Neytendastofu. Þær verða lægri árið 2015 en þær voru 2014. Ég hefði gjarnan viljað spyrja og vona að hæstv. fjármálaráðherra svari við fyrsta tækifæri: Hvernig ætlar hann að tryggja að þessi lækkun skili sér til neytenda?

Í því sambandi langar mig að benda á könnun sem Neytendasamtökin gerðu í sumar. Eins og þið munið voru lækkuð gjöld á tóbak og áfengi, bensín og olíu. Þetta var ákveðið hérna í desember og var liður í kjarasamningaviðræðum sem þá voru í gangi og átti að stuðla að því að verðlagsáhrifin yrðu innan verðbólgumarkmiða. Þetta er spurning um að reyna að halda verðbólgunni í skefjum. Neytendasamtökin gerðu smákönnun, hringdu í söluaðila sem selja tóbak, en pakkinn hefði átt að lækka um 6 kr. miðað við þessa lækkun, og þá kom í ljós að af þessum aðilum voru nokkrir sem vissu ekkert af lagabreytingunni, hún kom þeim beinlínis á óvart; þeir fögnuðu þó allir erindi samtakanna og lækkuðu verðið í kjölfarið. Nokkrir vissu af þessu en höfðu ekki lækkað útsöluverðið og segir í fréttatilkynningunni að það hafi ekki mátt ráða af svörum þeirra að þeir hefðu það í huga. Tveir smásalar af þeim sem talað var við höfðu raunverulega lækkað verðið um leið og þessi lagabreyting tók gildi. Þetta er bara lítil könnun sem félagasamtök gerðu sem ber í rauninni engin skylda til þess og fá ekki neitt fjármagn frá ríkinu til að sinna þessu eftirliti.

Ég verð bara að lýsa yfir áhyggjum mínum. Ég vona að hæstv. fjármálaráðherra sé að horfa á sjónvarpið hérna frammi ef hann er að fá sér kaffi. Ég vil gjarnan fá svör við því hvernig hann ætli að tryggja að þessi lækkun, líka á vörugjöldunum, skili sér til neytenda.

Varðandi vörugjöldin verð ég að segja um sykurskattinn sem var lagður á í tíð síðustu ríkisstjórnar að ég var ekki hlynnt honum, mér fannst þetta ómarkviss aðgerð. Þetta var skattheimta, þetta var ekki lýðheilsuaðgerð. Til þess hefði þurft að leggja miklu hærri skatt á. Það að kókflaskan hækkaði um 20 kr. skipti engu máli.

Af því að við virðumst öll áfram um lýðheilsu hérna er ég með miklu betri hugmynd og hún snýr að því að merkja matvæli þannig að neytendur skilji hvort vara inniheldur mikinn eða lítinn sykur eða mikið eða lítið salt og ég vona að þingheimur taki vel í þá tillögu. Mér finnst það vænlegra til árangurs að upplýsa neytandann vel.

Ég er alveg tilbúin að ræða einhvers konar lýðheilsuaðgerð sem felur jafnvel í sér skattlagningu á óhollustu en það verður að vera markvisst og vel útfært. Aðgerð síðustu ríkisstjórnar var það ekki.

Ég held að ég láti nú staðar numið. Ég vil reyndar nota tækifærið og taka undir með hv. þm. Karli Garðarssyni, að ég hef áhyggjur af því að það sé verið að skera niður framlög eins og til skattrannsóknarstjóra. Einnig vil ég geta þess að eftirlitsdeild Vinnumálastofnunar er orðin að engu. Það finnst mér ekki gott.

Síðan eru alls konar önnur mál sem við ræðum síðar. Það hefur verið komið hérna inn á Landspítalann. Mig langar líka til að nefna til dæmis geðdeildina á Sjúkrahúsinu á Akureyri. Aðstæður þar eru ekki boðlegar. Ég hef einu sinni komið inn á þessa deild, var að heimsækja hana og ég man enn tilfinninguna sem ég fékk þar inni. Hún var ekki góð. Þegar við erum að tala um húsakost spítala verðum við líka að horfa á að það á ekki bara við um Landspítalann, þó að þar sé mikil neyð. Þetta er eitthvað sem við ræðum og getum rætt vonandi á morgun við hæstv. heilbrigðisráðherra.