144. löggjafarþing — 3. fundur,  11. sept. 2014.

fjárlög 2015.

1. mál
[16:06]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Mig langar að spyrja hv. þingmann aðeins út í hækkun á matarskatti.

Nú þekki ég það vel sem landsbyggðarmaður að aðgengi að lágvöruverslunum er mjög mismunandi eftir því hvar búið er á landinu. Ekki nóg með að þessi hækkun á matarskatti bitni illa á öllum þeim sem hafa lægri tekjur heldur bitnar hún enn verr á þeim sem búa við þær aðstæður að ekki er lágvöruverslun í nágrenni þeirra. Þetta bætist við kostnað þeirra sem búa á þeim stöðum á landsbyggðinni og ýtir undir að fólk hreinlega geti ekki leyft sér að búa þar, bæði geta svæðin verið láglaunasvæði og svo leggst þetta ofan á með enn meiri þunga en annars væri þar sem þarna eru ekki lágvöruverslanir. Er þá verið að segja við þetta fólk að það geti ekki búið á þessum stöðum vegna þess að ríkið leggur alltaf á þyngri og þyngri byrðar á einn eða annan hátt? Núna bætist líka við að virðisaukaskattur á rafmagn og hita hækkar og er mjög algengt að það sé á köldu svæðunum sem verið er að þyngja byrðarnar enn meira.

Hvað telur þingmaðurinn að þetta þýði fyrir fólk sem býr á afskekktari stöðum á landsbyggðinni þar sem er hár orkukostnaður og hátt matarverð fyrir og þetta bætist við? Er það stefna þessarar ríkisstjórnar að hrekja þetta fólk frá heimilum sínum eða er það eitthvað sem er ómeðvitað? Hvað telur þingmaðurinn?