144. löggjafarþing — 3. fundur,  11. sept. 2014.

fjárlög 2015.

1. mál
[16:10]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið. Jú, fólk úti á landi á þessum svæðum á sem betur fer eldavélar, þvottavélar og ísskápa. En það er ekki víst það fólk hafi efni á því að endurnýja þessi tæki eins oft og þeir sem eru betur settir og hefur þá ekki möguleika á að nýta sér þessar vörugjaldalækkanir sem skyldi. Þegar lítið er eftir af ráðstöfunartekjum þessa fólks segir það sig sjálft að það er ekki endilega fólkið sem getur nýtt sér þetta.

Mig langar að spyrja hv. þingmann út í gagnrýni Bændasamtakanna á hækkun virðisaukaskatts á innlenda matvælaframleiðslu, hvort það skekki ekki samkeppnisaðstöðu innlendrar matvælaframleiðslu við innflutning á matvælum og hvort þetta ýti ekki undir aukinn innflutning á landbúnaðarafurðum erlendis frá. Við erum sammála um að við eigum ekki að ganga í Evrópusambandið. Ýtir þetta ekki enn frekar undir áróðurinn um að við göngum í Evrópusambandið til að fá lægri matvæli þaðan vegna þess að innlend landbúnaðarframleiðsla verður ekki eins samkeppnisfær og annars ef virðisaukaskatturinn er hækkaður úr 7% í 12%? Óttast þingmaðurinn ekki að þetta verði afleiðingarnar og krafan um að flytja inn hrátt kjöt og annan varning af þeim toga verði enn þá meiri?

Aðeins varðandi skattrannsóknarstjóra. Ég heyri að hv. þingmaður er sama sinnis og ég í þeim efnum, að það eigi að auka fé í þann þátt því að það skilar sér til baka, ekki eigi að skera niður. Telur hv. þingmaður að efla eigi það samstarf sem hefur verið milli aðila vinnumarkaðarins og skattrannsóknarstjóra af því að það skilar sér margfalt til baka og ætlar hann þá að vinna að því að það verði aukið frekar en skorið niður, eins og kemur fram hér?