144. löggjafarþing — 3. fundur,  11. sept. 2014.

fjárlög 2015.

1. mál
[16:36]
Horfa

Kristján L. Möller (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hæstv. fjármálaráðherra fyrir það svar sem hann gaf hér varðandi tekjuforsendurnar og tekjuáætlunina. Það er alveg rétt að það er galli hvað álagning á lögaðila kemur alltaf seint fram, sem ræður auðvitað miklu um spár fyrir næsta ár en það kemur á þeim tíma sem hæstv. ráðherra fjallaði um.

Miðað við þær forsendur, og það er aðallega spurning mín, sem settar eru fram og eru í reiknilíkaninu hjá fjármálaráðuneytinu og þetta sem var verið að vinna í sumar sem ég gerði hér að umtalsefni með skattprósentuna í virðisaukaskatti og þessa 4 milljarða, hvað segja reiknilíkönin núna þegar búið er að ákveða 24% og 12%? Hvaða breytingar eru þetta? Eru þetta 4 milljarðar eða 3? Það er mjög mikilvægt að vita þetta í byrjun. Ég er ekki að gagnrýna þetta vegna þess að þetta er hluti af tímaplaninu sem við erum með. Eins og fram hefur komið kemur fjárlagafrumvarp fyrr fram vegna þess að Alþingi byrjar fyrr. Það var gert til að nefndin hefði meiri tíma til að vinna fjárlagafrumvarpið og er til bóta. En ég ítreka spurninguna: Getur hæstv. fjármálaráðherra ekki nefnt tölu?

Aðeins varðandi hitt með virðisaukaskattinn, sem við ræðum betur á morgun, þá stendur það hér í öðru frumvarpi sem er um virðisaukaskattinn — þar er talað um að áætlanir verði skattskyldar m.a. fyrir vinnustaði, flutning á fólki til og frá vinnustað, íþróttafélög og aðra aðila. Þar er sagt að íþróttafélög muni lenda í virðisaukaskatti, við það að flytja t.d. Stjörnuna norður til Siglufjarðar til að spila fótbolta eða eitthvað þess háttar. Nú er það allt í einu komið með virðisaukaskatt. Ég spyr aftur: (Forseti hringir.) Er þá meiningin að auka ferðajöfnunarsjóð íþróttafélaga?