144. löggjafarþing — 3. fundur,  11. sept. 2014.

fjárlög 2015.

1. mál
[16:46]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna. Nú er hv. þingmaður fyrrverandi formaður Bændasamtaka Íslands. Athygli hefur vakið sú mikla gagnrýni núverandi forustu Bændasamtakanna og formanns Bændasamtakanna á hækkun á virðisaukaskatti á matvæli. Forusta bænda telur að ríkisstjórnin sé ekki að vinna að því að efla innlenda matvælaframleiðslu með þessari miklu hækkun á virðisaukaskatti og telur að hún hafi þau áhrif að eftirspurn eftir innlendri framleiðslu muni breytast og þetta muni skerða samkeppnisstöðu innlendrar framleiðslu gagnvart innfluttri matvöru. Mig langar að heyra álit hv. þingmanns á þessum áhyggjum núverandi formanns Bændasamtakanna, hvort þær eigi ekki við rök að styðjast.

Mig langar einnig að heyra skoðanir hv. þingmanns á þeirri gagnrýni sem kemur fram hjá Bændasamtökunum á að verið sé að skerða framlög til Landbúnaðarháskóla Íslands og að líka sé verið að lækka framlög til Háskólans á Hólum, hvort það geti haft áhrif á fjárlagafrumvarpið, þ.e. sá mikli vilji heimamanna og þingmanna kjördæmisins að Landbúnaðarháskólinn á Hvanneyri verði sjálfstæður áfram, og hvort það sé verið að brjóta niður skólann innan frá með lækkun fjárframlaga í fjárlagafrumvarpinu til þessarar stofnunar og hvort hann muni reyna að bæta þar úr þar sem hann situr í hv. fjárlaganefnd.

Þetta er það sem mig langar fyrst að heyra frá hv. þingmanni.